Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Sviðslistir bannaðar: Tónleikum og sýningum frestað

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Samkvæmt nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra sem tekur gildi á miðnætti eru sviðslistir óheimilar og aðeins tíu manns mega koma saman. Sinfóníuhljómsveit Íslands aflýsir þrennum streymistónleikum sem voru á dagskrá næstu vikur, Þjóðleikhúsið frestar skólasýningum og Borgarleikhússtjóri segir að nú þurfi allir að leggjast á eitt svo starfsemin geti hafist á ný sem fyrst.

Sinfóníuhljómsveitin aflýsir þrennum streymistónleikum

Lára Sóley Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, segir í samtali við fréttastofu að hljómsveitin aflýsi þrennum streymistónleikum sem til stóð að senda út í samstarfi við RÚV á næstu vikum. „Aðgerðirnar gilda til 17. nóvember, við ætluðum til dæmis að hafa tónleika þann 19., en ég sé ekki að við getum haldið okkur við það,“ segir hún.

Lára segir að hljómsveitin hafi verið búin að endurskipuleggja tónleikadagskrána nokkrum sinnum en að stefnt hafi verið á að byrja að æfa aftur í næstu viku. „Nú erum við að skoða hverjir möguleikarnir eru. Ég reikna með samtali við aðrar sviðslistastofnanir og við ráðuneytið, svo maður átti sig á því hvað hægt er að gera,“ segir hún.  

Hljómsveitin hefur getað brugðist við fjöldatakmörkunum með því að æfa í minni hópum en venjan er. „Við höfum verið lánsöm að geta sniðið okkur stakk eftir vexti en eins og staðan er núna er ég ekki búin að sjá að við getum verið með minni hópa. Ég held að þetta sé spurning núna um að allir leggist á eitt og maður lágmarki allt. Við erum líka að nýta tímann innan hljómsveitarinnar, til dæmis í stefnumótunarvinnu með fundum á netinu,“ segir Lára. 

Þjóðleikhúsið frestar fyrirhuguðum skólasýningum 

Magnús Geir Þórðarson, leikhússtjóri Þjóðleikhússins, segir í samtali við fréttastofu að nýja reglugerðin hafi heilmikil áhrif á starfsemina. „Við vorum komin með nýja áætlun sem miðaði að því að bjóða leik- og grunnskólum í leikhúsið, núna þegar venjuleg starfsemi liggur niðri,“ segir hann. Vegna hertra aðgerða hafi í dag verið ákveðið að fella niður allar barnasýningarnar sem voru á dagskrá í næstu viku. „En svo erum við að vonast til þess að sem allra fyrst getum við farið af stað með þessi áform um barnasýningar,“ segir hann. Ýmsar breytingar hafi nú þegar verið gerðar á dagskrá leikársins, minni sýningar færðar framar í röðina og á stærri svið og stórum sýningum frestað. 

Hann segir að leikhúsið eigi enn eftir að fá skýringu á því hvað það þýði að sviðslistir séu óheimilar. „Ég vænti þess að æfingar séu enn heimilar svo lengi sem þær rúmast innan tíu manna takmarkana og við höldum fjarlægð,“ segir hann. Þá segir Magnús að leikhúsið nýti tímann eins og kostur er: „Við erum að vinna í handritum og endurmenntun, og í því að efla starfshópinn. Þannig tíminn nýtist alveg, þótt starfið sé með óhefðbundnum hætti,“ segir hann.  

„Verðum tilbúin að byrja aftur“

Brynhildur Guðjónsdóttir, leikhússtjóri í Borgarleikhúsinu, segir í samtali við fréttastofu að nú þurfi leikhúsið að draga enn meira úr starfseminni en áður. „Nú eru sviðslistir bannaðar svo það er ekki annað í stöðunni,“ segir hún. Eftir að tuttugu manna fjöldatakmarkanir tóku gildi hafa verið haldnar æfingar í sóttvarnahólfum í leikhúsinu.

„Ég er einmitt á fundi núna og við erum að ræða þetta. Núna ríður á að við vinnum bug á þessu, við erum öll í þessu saman,“ segir hún. „Við verðum allavega alveg tilbúin að byrja aftur um leið og við megum,“ bætir hún við.