Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Smit í Brekkuskóla – 16 ný smit á Norðurlandi eystra

30.10.2020 - 11:57
default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Átta smit hafa bæst við á Akureyri frá því í gær og átta á Dalvík. Sveitarstjóri býst við því að smitum eigi eftir að fjölga og hvetur íbúa til að halda sig heima næstu daga. Nemandi í Brekkuskóla er með veiruna og leikskólinn á Dalvík er í úrvinnslusóttkví.

Barn í 5. bekk í Brekkuskóla á Akureyri er með Covid-19. Af þessum sökum, og á meðan smitrakning fer fram, eru allir nemendur árgangsins sem voru í skólanum miðvikudaginn 28. október komnir í sóttkví sem og kennarar 5. bekkjar sem höfðu verið í samskiptum við barnið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Akureyrarbæ.

16 smit hafa bæst við á Norðurlandi eystra síðan í gær. Þrjú voru utan sóttkvíar en hin nýkomin í sóttkví samkvæmt upplýsingum frá Almannavörnum sem segja tölurnar í takt við það sem þau reiknuðu með. Smitum hefur fjölgað hratt síðustu daga nú eru 80 í einangrun á Norðurlandi eystra og 238 í sóttkví. 

Býst við fjölgun í dag og næstu daga

Þrettán eru í einangrun í Dalvíkurbyggð. „Þetta er samkvæmt tölum lögreglunnar klukkan átta í morgun en við erum svo sem alveg að reikna með að þessar tölur hækki og breytist eftir því sem líður á daginn og næstu daga.“ segir Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri. Hlutirnir breytast hratt og Katrín segir þetta eiginlega dæmigerða útbreiðslu í litlu og nánu samfélagi. Þegar smitið komi inn fari það fljótlega í mikla dreifingu út af nánd íbúanna og tengingu inn á vinnustaði.

Hvetur fólk til þess að halda sig heima

Smitin hafi verið rakin til sama uppruna og veiran hafi verið byrjuð að dreifa sér áður en fyrstu veikindi gerðu vart við sig. Leikskólinn er lokaður vegna smits en aðrir stærri vinnustaðir halda eðlilegri starfsemi gangandi. Hún segir ótta í samfélaginu og margar spurningar brenni á fólki. „Við höfum til dæmis bara hvatt alla íbúa byggðarlagsins til þess að halda sig til hlés næstu daga og hitta bara engan sem ekki tilheyrir innsta hring,“ segir Katrín.