Plötur í fullri lengd eru ennþá nýtileg mælieining á stöðu tónlistarmanna enda erfitt að meta listamann út frá einu lagi. Sýndu mér tíu lög og ég skal segja þér hver þú ert. Eða sjö, sem virðist vera nýja breiðskífulengdin.
Bríet snarar hins vegar fram níu lögum á þessari fyrstu breiðskífu sinni en áður hafa komið út stök lög og stuttskífa. Þetta er fagnaðarefni, til fyrirmyndar og mikilvægt að fleiri breiðskífur komi frá ungum poppynjum. GDRN og Bríet eru í fararbroddi eins og er og við þurfum einfaldlega meira af þessum toga. Plötuna vann Bríet með upptökustjóranum Pálma Ragnari Ásgeirssyni. Bríeti til halds og trausts auk Pálma voru þau Rubin Pollock, Þorleifur Gaukur Davíðsson, Gabríel Ólafs og Ragnheiður Ingunn.
Platan hefst með sólríku lagi, „Sólblóm“. Poppað og gáskafullt, góð opnun. Söngrödd Bríetar er góð. Falleg og björt en líka kúl. Viljandi letileg og drafandi þegar við á, innileg og tær þegar þurfa þykir. Já, hún er góð söngkona, eitt af því sem er með þessari nýjustu poppstjörnu okkar. „Hann er ekki þú“ er hálfgerður klúbba-„banger“, kaldara og teknóvæddara. „Djúp sár gróa hægt“ er af allt öðru sauðahúsi eins og nafnið ber með sér. Lágstemmd en um leið tilfinningaþrungin ballaða. Bríet er frábær í þessum rólegu, einlægu lögum. Leyfir röddinni að stoppa nánast, talsyngur og gefur sig alla í túlkunina. Þetta lag er glæsilegt. Áhrifaríkt.
Í „Nær þér“ erum við komin út á gólf á nýjan leik og pumpandi klúbbastemning yfir. „Draumaland“ er með líku sniði. „Rólegur kúreki“ er stærsti smellur þessarar plötu og ekki að ósekju. Ótrúlega flott stemning yfir, Bríet syngur eins og sú sem valdið hefur og texti framúrskarandi. Það næst meira að segja hálfgildings vestra-sólarlagssemning, kúrekaballaða eiginlega. Sniðuglega útsett og vel heppnað í alla staði. „Eltum sólina“ er einslags uppbrot eður millispil, vel útfært. „Fimm“ er fremur máttlaust popplag í millitakti en „Rauðar rósir fölna“ slauffar plötunni með glans. Svöl ballaða, dásamlega sungin og hún endar á töluðum kafla sem er áhrifaríkur.