Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Seðlabankinn sýknaður en þarf að greiða Þorsteini bætur

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Seðlabanki Íslands var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag sýknaður af kröfum Samherja, sem krafðist rúmlega 300 milljóna króna í bætur frá bankanum. Seðlabankinn þarf hins vegar að greiða Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja, skaðabætur upp á tæpar tvær og hálfa milljón með vöxtum.

Dómsmálið varðar þá ákvörðun Seðlabankans að sekta Samherja um 15 milljónir fyrir meint brot á gjaldeyrislögum, en sektin var afturkölluð eftir að í ljós kom að engin gild refsiheimild var til staðar í lögunum sem staðfest var af Hæstarétti. Samherjamenn hafa alla tíð verið afar gagnrýnir á málsmeðferð Seðlabankans, sem framkvæmdi húsleit hjá fyrirtækinu

Í málinu krafðist Samherji 306 milljóna í skaðabætur og 10 milljóna í miskabætur. Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, fékk 1,3 milljóna króna sekt fyrir sömu sakir, en hún var einnig afturkölluð. Hann stefndi einnig Seðlabankanum og krafðist fimm milljóna í skaðabætur og einnar og hálfrar milljónar í miskabætur. 

Í dómsorði Héraðsdóms Reykjavíkur í dag er Seðlabankinn sýknaður af kröfu Samherja þar sem Samherji þarf að greiða 3,7 milljónir í málskostnað. Í skaðabótamáli Þorsteins er Seðlabankanum hins vegar gert að greiða Þorsteini Má tæpar 2,5 milljónir í skaðabætur, með vöxtum, og 200 þúsund krónur í miskabætur. 

Sagði Seðlabankann hafa verið í veiðiferð

Aðalmeðferð fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðasta mánuði. Garðar Gíslason, lögmaður Samherja, fór þá hörðum orðum um Seðlabankann og sagði að enginn rökstuddur grunur hefði verið um meint brot félagsins þegar ráðist var í aðgerðir. Hann sagði Seðlabankann hafa verið í veiðiferð. 

Garðar sagði það síðar hafa komið í ljós að aðgerðir Seðlabankans hefðu öðrum þræði verið ætlað að skapa öðrum fordæmi. Aðgerðir Seðlabankans hafi farið fram í kastljós fjölmiðla og bankinn hefði látið vita af þeim um allan heim. Hann sagði starfsmenn RÚV hafa verið mætta á undan starfsmönnum Seðlabankans til að taka myndir af lögreglumönnum í skrúðgöngu inn í fyrirtækið. 

„Þetta er einsdæmi,“ sagði lögmaðurinn í munnlegum málflutningi sínum í september.  

Var hræddur um að missa fyrirtækið

Þorsteinn Már sagði fyrir dómi að bótakrafa Samherja væri hófleg, kostnaðurinn af málinu væri ábyggilega miklu hærri. Hann sagði Seðlabankann hafa farið fram í málinu með vilja til að skaða Samherja. „Við vorum hræddir um að við mundum hugsanlega missa fyrirtækið,“ lýsti hann fyrir dómi, að hans sögn vegna grófra og rangra fullyrðinga bankans, sem hafi bitnað á orðspori hans hjá viðskiptavinum og lánardrottnum.

Jóhannes Karl Sveinsson, lögmaður Seðlabankans í málinu, vitnaði til húsleitarheimildar sem Seðlabankinn fékk hjá Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir húsleitirnar 2012. Þar hefði komið fram að bankinn teldi nauðsynlegt að rannsaka hversu umfangsmikið meint brot Samherja væri. Dómari hefði sagt í úrskurði sínum að miðað við framlögð gögn væru ríkar ástæður til að ætla að viðkomandi fyrirtæki hefðu gerst brotleg við lög um skilaskyldu gjaldeyris.

Þá sýndi Jóhannes Afríkustarfsemi Samherja og fyrirtækjum útgerðarinnar á Kýpur, og skilum á gjaldeyri þaðan, sérstakan áhuga í aðalmeðferðinni. Þorsteinn Már sagði þau atriði málinu óviðkomandi, enda hefði húsleit og rannsókn Seðlabankans, sem málið nú snýst um, varðað meinta undirverðlagningu á fiski. Þorsteinn barði í borð undir spurningunum og dómari bað menn að halda stemmningunni við stofuhita.