
Samherji ætlar að áfrýja dómi í Seðlabankamáli
Í málinu krafðist Samherji skaðabóta og miskabóta frá Seðlabankanum vegna þeirrar ákvörðunar bankans að leggja 15 milljóna króna stjórnvaldssekt á Samherja fyrir meint brot á gjaldeyrislögum, en sektin var afturkölluð eftir að í ljós kom að engin gild refsiheimild var til staðar í lögunum sem staðfest var af Hæstarétti. Samherjamenn hafa alla tíð verið afar gagnrýnir á málsmeðferð Seðlabankans, sem gerði húsleit hjá fyrirtækinu árið 2012.
Á heimasíðu Samherja er haft eftir forstjóranum Þorsteini Má Baldvinssyni að niðurstaða dómsins sé vonbrigði. Þorsteinn Már stefndi sjálfur Seðlabankanum í aðskildu máli, eftir að hafa fengið 1,3 milljóna króna sekt fyrir sömu sakir og Samherji, sem einnig var afturkölluð.
Í því máli var bankanum gert að greiða honum tæplega tvær og hálfa milljón í skaðabætur, með vöxtum, 200 þúsund krónur í miskabætur og svo eina og hálfa milljón í málskostnað.
„Við teljum, eftir að hafa farið yfir dómsniðurstöður í báðum þessum málum, að forsendur dóms í máli Samherja séu ekki í samræmi við niðurstöðuna í mínu máli. Við höfum þegar tekið ákvörðun um að áfrýja dómi í máli Samherja gegn Seðlabankanum til Landsréttar,“ segir Þorsteinn Már á vef Samherja.
Hann segir þar jafnframt að niðurstaðan í máli hans gegn bankanum sé persónulegur sigur og staðfesti það að enginn grundvöllur hafi verið fyrir sektarákvörðun Seðlabankans.