Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Nær allir landsmenn treysta Þríeykinu

Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan á höfuðborgarsvæ� - RÚV
Yfir 95 prósent landsmanna treysta Þríeykinu svokallaða til að miðla áreiðanlegum upplýsingum um kórónuveirufaraldurinn, ef marka má niðurstöður kannana sem vinnuhópur þjóðaröryggisráðs um upplýsingaóreiðu og COVID-19 stóð fyrir í samstarfi við Maskínu. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu vinnuhópsins þar sem meðal annars er fjallað um mikilvægi upplýsingamiðlunar.

Meðal þess sem var athugað í könnununum, sem voru gerðar í júní og ágúst á þessu ári, var traust landsmanna til hinna ýmsu miðla og stofnana þegar kemur að upplýsingagjöf tengdri faraldrinum. Samkvæmt niðurstöðunum treystu nánast allir aðspurðra Þríeykinu (Ölmu D. Möller landlækni, Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni og Víði Reynissyni yfirlögregluþjóni), innlendum viðbragðsaðilum, svo sem almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, embætti landlæknis og Landspítala, til þess að miðla áreiðanlegum upplýsingum um kórónuveiruna og COVID-19. 

Mikið traust til innlendra fjölmiðla og lítið til samfélagsmiðla

Rúmlega 80 prósent treystu innlendum fjölmiðlum og helmingi færri treystu erlendum fjölmiðlum. Aðeins um 10 prósent sögðust leggja traust sitt á upplýsingar á samfélagsmiðlum. 

Í skýrslunni var lögð sérstök áhersla á upplýsingaóreiðu og hvort misvísandi eða rangar upplýsingar hefðu borist almenningi. Um 30 prósent sögðust hafa séð eða heyrt mjög eða fremur mikið af röngum eða misvísandi upplýsingum um kórónuveiruna og COVID-19. Af þeim sem höfðu séð eða heyrt rangar eða misvísandi upplýsingar höfðu langflestir, eða tæp 80 prósent, fengið þær á samfélagsmiðlum, rúm 40 prósent á erlendum fréttasíðum og tæp 30 prósent í íslenskum miðlum.

Traust til sóttvarnayfirvalda meira en erlendis

Í skýrslunni eru niðurstöður kannananna bornar saman við niðurstöður sambærilegrar rannsóknar sem Reuters Institute við Oxford-háskóla í Bretlandi gerði í sex ríkjum í mars og apríl.

„Vísindamenn, læknar og aðrir heilbrigðissérfræðingar njóta mikils trausts til að miðla upplýsingum um kórónuveiruna í öllum ríkjunum sex sem voru í rannsókn Reuters Institute við Oxford-háskóla sem fór fram í mars og apríl, en hvergi sjást jafn háar tölur um traust og þríeykið fær á Íslandi (95,8% í júní og 95,3% í ágúst). Í Bretlandi sögðust 87% treysta sérfræðingunum, 80% í Bandaríkjunum, 74% í Þýskalandi, 84% á Spáni, 81% í Suður-Kóreu og 90% í Argentínu,“ segir í skýrslunni. 

Traust til innlendra fjölmiðla mikið í alþjóðlegum samanburði

Traust til fjölmiðla mældist að sama skapi meira hér á landi en í þeim löndum sem eru til skoðunar í bresku rannsókninni: „Í könnun Reuters Institute mældist traust til fjölmiðla 60% í Bretlandi, 52% í Bandaríkjunum, 58% í Þýskalandi, 51% á Spáni, 67% í Suður-Kóreu og 63% í Argentínu. Í samanburði mældist traust til innlendra fjölmiðla á Íslandi 82,6% í júní og 82,1% í ágúst eins og áður segir.“

Traust til ríkisstjórnarinnar er hins vegar sambærilegt hér og í ríkjunum sex. „Í könnunum Maskínu sögðust 64,1% (í júní) og 68,4% (í ágúst) treysta ríkisstjórninni en sambærilegar tölur voru 45% í Bandaríkjunum, 59% í Þýskalandi, 69% í Bretlandi, 46% á Spáni, 66% í Suður-Kóreu og 70% í Argentínu,“ segir í skýrslunni. 

Niðurstöðurnar byggja á könnunum sem Maskína gerði fyrir vinnuhóp Þjóðarörygggisráð, fyrst dagana 18. - 29. júní 2020 og svo dagana 13.-20 ágúst. Í fyrri könnuninni voru svarendur 840 og í þeirri seinni 891. „Svarendur eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Við úrvinnslu voru gögnin vegin til samræmis við tölur Hagstofunnar þannig að hópurinn sem svarar endurspeglar þjóðina út frá kyni, aldri og búsetu. Við vigtun gagna getur birst örlítið misræmi fjölda tölum og hlutföllum sem orsakast af námundun.“