Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lofthreinsiver á Bakka gæti skapað allt að 500 störf

30.10.2020 - 13:15
Mynd með færslu
 Mynd: Carbon Iceland
Fyrirtækið Carbon Iceland áformar að reisa lofthreinsiver á Bakka við Húsavík og fanga þar koltvísýring úr andrúmsloftinu. Þannig verði framleitt eldsneyti og afurðir til matvælaframleiðslu. Áætlaður kostnaður við verkefnið er 140 milljarðar króna og það á að skapa þrjú til fimm hundruð störf.

Carbon Iceland ehf. hefur gert samkomulag við kanadískt hátæknifyrirtæki sem hefur þróað aðferð til að hreinsa CO2, eða koltvísýring, beint úr andrúmslofti.

Nýta afurðir úr koltvísýringi í eldsneyti og matvæli

Fyrirtækið hyggst nú reisa loftorkuver á Bakka við Húsavík, sem gerir kleift að hreinsa og binda eina milljón tonna af koltvísýringi úr andrúmslofti. „Og svo ætlum að nýta það til að framleiða afleiddar afurðir og hugmyndin er að vera með CO2 til matvælaframleiðslu og síðan að framleiða grænt eldsneyti,“ segir Eyjólfur Lárusson, framkvæmdastjóri Carbon Iceland.

Lengi haft áhuga á iðnaðarsvæðinu á Bakka

Undirrituð hefur verið viljayfirlýsing við sveitarfélagið Norðurþing en Eyjólfur segir þá lengi hafa horft á iðnaðarsvæðið á Bakka fyrir þessa verksmiðju. „Við áætlum að þegar allt verður komið í gang þá verði þetta kannski 300 til 500 störf, bein og óbein.“  

Áætlaður kostnaður er 140 milljarðar króna

Áætlað er að hefja framkvæmdir á Bakka árið 2023 og að starfsemin hefjist 2025. Áætlaður kostnaður er 140 milljarðar króna. „Við erum í samstarfi við Carbon Engineering, sem er hátæknifyrirtæki í Kanada, og við erum í viðræðum við aðila í gegnum þá. Það er enginn útilokaður varðandi fjármögnun, en erlendir aðilar hafa sýnt áhuga varðandi fjármögnun og við höfum hafið það samtal.“