Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Leggur fram frumvarp um viðspyrnustyrki fyrir fyrirtæki

30.10.2020 - 17:17
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að grípa til frekari aðgerða til að koma til móts við fyrirtæki vegna kórónuveirufaraldursins. Annars vegar hyggst Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, leggja til við efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis að fleiri fyrirtæki geti sótt um tekjufallsstyrki og að úrræðið gildi í lengri tíma. Hins vegar hyggst hann leggja fram frumvarp um svokallaða viðspyrnustyrki sem á að veita í framhaldi af tekjufallsstyrkjum og fram á næsta ár.

Tekjufallsstyrkir eiga að styðja við fyrirtæki sem hafa orðið fyrir verulegu tekjufalli vegna faraldursins frá 1. apríl til 31. október. Með breytingunum verður fallið frá skilyrðum um hámarksfjölda starfsmanna, en fyrirtæki með fleiri en þrjá starfsmenn máttu áður ekki sækja um slíka styrki.

Lagt er til að tekjufallsstyrkir verði veittir fyrir allt að fimm stöðugildi, að rekstraraðilar sem verða fyrir 40-70 prósent tekjufalli geti átt rétt á styrk að fjárhæð 400 þúsund króna á mánuði á hvert stöðugildi, en sé tekjufallið 70 til 100 prósent geti styrkur orðið 500 þúsund krónur á hvert stöðugildi á mánuði. Þá er lagt til að tímabil verði lengt í sjö mánuði frá 1. apríl síðastliðnum og að hámarksstyrkur verði 17,5 milljónir króna á rekstraraðila.

Viðspyrnustyrkirnir eiga að koma í framhaldi af tekjufallsstyrkjum og gilda fram á næsta ár. Þeir eiga að tryggja að fyrirtæki sem hafa orðið fyrir tekjufalli vegna faraldursins geti viðhaldið nauðsynlegri lágmarksstarfsemi á meðan áhrifa faraldursins gætir. Sambærileg skilyrði eiga að gilda og um tekjufallsstyrki og verða þeir veittir með reglulegum greiðslum yfir að minnsta kosti sex mánaða tímabil.

Þá hefur félagsmálaráðherra hafið undirbúning að framlengingu hlutabótaleiðarinnar og jafnframt hefur Alþingi til meðferðar frumvarp um framhald lokunarstyrkja. Í því felst að heimildir til greislu lokunarstyrkja miðist ekki eingöngu við takmarkanir sóttvarnayfirvalda sem þegar hafa komið til framkvæmda heldur einnig til frekari takmarkana sem kunna að koma síðar.