Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Kynna reglugerð vegna takmarkaðs skólahalds um helgina

Mynd: RÚV / RÚV
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynna reglugerð vegna takmarkana á skólahaldi um helgina, að höfðu samráði við skólana.

Lilja sagði á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í dag að við ákvarðanatöku um takmarkanir á skólahaldi væri grundvallaratriði að hlusta á skólastjórnendur og kennara, en ekki síst nemendur. Þá sagði hún að til þess að tryggja að hægt væri að halda skólastarfi gangandi hefði ríkisstjórnin stóraukið fjármagn til skólakerfisins. 

Þá nefndi hún nýja menntastefnu stjórnvalda sem kynnt verður á næstu dögum og gildir til ársins 2030: „Við ætlum að koma öllum aftur í skóla og vera bjartsýn og sýna þrautseigju. Þetta mun allt taka enda og það er mikilvægt að við náum inn í aðventuna og jólin og getum haldið gleðileg jól,“ sagði hún og þakkaði nemendum, kennurum og skólastjórnendum fyrir að sýna þrautseigju og hugrekki.