Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Gripu það helsta og hlupu út á tánum

30.10.2020 - 19:11
Mynd: Pattra Sriyanonge / Fréttir
Theodór Elmar Bjarnason býr í Izmir í Tyrklandi ásamt konu sinni Pöttru Sriyanonge og syni þeirra Atlasi Aron. Theódór segir að jarðskjálftinn sem reið þar yfir í dag hafi verið óhugnalegur. Fjölskyldan býr á 21. hæð og segir að öll blokkin hafi dúað. Hún hefur nú flutt tímabundið til vina sem búa á jarðhæð til að geta stokkið auðveldlega út ef harðir eftirskjálftar fylgja þeim stóra.

Voru á 21. hæð þegar skjálftinn reið yfir

Jarðskjálfti hátt í sjö að stærð varð við grísku eyjuna Samos skömmu fyrir hádegi í dag. Upptök skjálftans voru í Eyjahafi um sautján kílómetrum frá borginni Izmir þar sem langflestir slösuðust, sex létust og fjöldi bygginga skemmdist eða hrundi.

Elmar býr í Izmir með konu sinni  Pöttru og barni. „Við vorum bara í íbúðinni okkar uppi á 21. hæð. Við fundum mjög vel fyrir þessu. Blokkin dúaði öll. Það var svolítið óhugnalegt en maður hefur svo sem upplifað aðra skjálfta hérna síðan við fluttum en ekki alveg svona kraftmikla.“

Stóðu fyrir utan með 300 íbúum

Fjölskyldan greip það helsta og hljóp út úr blokkinni. „Við tókum bara símana okkar og eitthvað dót og hlupum niður tröppurnar og stóðum fyrir utan eins og allir gerðu. Þar höfðu safnast saman eitthvað um þrjú til fjögur hundruð manns sem stóðu fyrir utan og voru að bíða og sjá hvort það kæmu einhverjir eftirskjálftar strax eða hvort eitthvað hafi skemmst í húsinu. Sem betur fer var ekkert, engin ummerki eða neitt í okkar húsi eða húsunum í kring.“

- Þið eruð með lítið barn, hvernig brást hann við þessu öllu saman?

„Við reyndum bara að gera lítið úr þessu svo hann fyndi eins lítið fyrir þessu stressi og hægt er. Ég reyndi bara að snúa þessu upp í einhvern leik og hvað það væri gaman að íbúðin myndi hrisstast. Ég held að hann hafi ekkert verið var við þetta sem betur fer og þetta situr ekkert í honum.“

Fengu inni hjá vini á jarðhærð

Theódór Elmar segir íbúa skiljanlega í sjokki og enn að ná áttum.

„Núna er bara allt á fullu í að reyna að bjarga einhverju fólki sem er fast í einhverjum rústum og það er náttúrulega bara sjokk held ég hjá flestum og fólk er að reyna að átta sig á þessu.“

Fjölskyldan fékk inni hjá vini Theódórs Elmars sem býr á jarðhæð. Þannig eiga þau auðveldara með að stökkva út komi harður eftirskjálfti.

„Ég rölti hérna yfir í blokk hjá liðsfélaga mínum sem býr á jarðhæð þannig að maður geti allavega stokkið út ef það kemur eftir skjálfti. Manni brá alveg í brún en við vorum fljót að jafna okkur. Núna er maður bara að vonast að skaðinn sé ekki of mikill í mannslífum og slösuðu fólki.“