Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Gamlir hressir kallar og þrjár yngri konur í Fimmunni

Mynd með færslu
 Mynd: Interscope - Facebook

Gamlir hressir kallar og þrjár yngri konur í Fimmunni

30.10.2020 - 13:35

Höfundar

Það er ágætisblanda af reynslu og æsku í Fimmunni að þessu sinni, í boði er nýtt frá hýru norsku poppprinsessunni Girl In Red, apakettirnir í Gorillaz eru með Beck með sér, Hot Chip reynir að trompa það með því að fá goðsögnina Jarvis Cocker á mækinn, rísandi stjarnan Julien Baker reynir að gera sig gilda og Lana Del Rey lokar þessu með fyrsta sönglinum af væntanlegri breiðskífu.

Girl In Red - Rue

Norska poppstjarnan Marie Ulven hefur verið að malla út músík í nokkur ár þrátt fyrir ungan aldur, með vægast sagt góðum árangri. Hún hefur verið átrúnaðargoð í hinsegin senunni allt frá því hún gaf út smell sinn I Wanna Be Your Girlfriend og er nýbúinn að senda frá indí-negluna Rue sem er fyrsti söngull af væntanlegri plötu hennar.


Gorillaz ft Beck - The Valley of the Pagans

Apakettirinir í Gorillaz voru loksins að senda frá plötuna Song Machine, Season One: Strange Timez, sem þeir vilja kalla safn laga eða bara eitthvað allt annað en plötu. Í kjölfarið sendu þeir út textamyndband við lagið The Valley of the Pagans þar sem enn ein sleggjan kemur fram með þeim og nú er það Beck.


Hot Chip ft. Jarvis Cocker - Straight To The Morning

Hljómsveitin Hot Chip er í stuði yfir meðallagi þessa dagana og sendir frá sér hverja snilldina á fætur annarri. Í fyrra kom út hin frábæra Bath Full of Ecstacy, svo fyrir nokkrum mánuðum Late Night Tales með ábreiðu þeirra af Candy Says og nú er það Straight to the Morning, samstarf við diskó 2000-drjólann Jarvis Cocker.


Julien Baker - Faith Healer

Julien Baker er rísandi stjarna í indí-senunni í Bandaríkjunum og hefur meðal annars hitað upp fyrir listamenn eins og Death Cab for Cutie, Conor Oberst, The Decemberists, Paramore og Belle & Sebastian. Hún hefur gefið út tvær plötur en sú þriðja Little Oblivions kemur út á Matador í byrjun næsta árs og lagið Faith Hearler er einmitt á henni.


Lana Del Rey - Let Me Love You Like A Woman

Let Me Love You like a Woman heitir nýja lagið hennar Lönu Del Rey og er fyrsti söngull af væntanlegri sjöundu plötu hennar, Chemtrails Over the Country Club, sem fylgir eftir vinsældum meistarastykkis hennar Norman Fucking Rockwell. En Lana hefur sem betur fer verið að fá uppreist æru og það lof sem hún á skilið í poppbransanum á síðustu árum, eftir að hafa þurft að vaða skít upp að eyrum frá tónlistarpressunni.


Fimm á föstudegi á Spotify