„Erfitt að halda sönsum en maður gerir sitt besta“

Mynd: Julia Colavita / Halldór Armand

„Erfitt að halda sönsum en maður gerir sitt besta“

30.10.2020 - 09:07

Höfundar

Halldór Armand Ásgeirsson segir kynningarstarfið sem fylgir bókaútgáfu kvíðvænlegt og gerólíkt því að sitja einn við skriftir eins og hann er vanur. Hann er búsettur í Berlín en er kominn til Íslands til að fylgja eftir nýrri skáldsögu eins og hægt er í heimsfaraldri.

Rithöfundurinn og pistlahöfundurinn Halldór Armand gaf nýverið út skáldsöguna Bróðir. Hann dvelur tímabundið á Íslandi, nánar tiltekið í Álftamýrinni, og segir það nokkuð viðeigandi. „Ég hitti einu sinni pabba félaga míns í Borgarnesi og hann leit á mig og sagði: Þú ert af vaðfuglskyni! Þá var hann að meina að maður væri langleggjaður og gæti því stikað yfir mýrarnar,“ segir Halldór í Morgunkaffinu á Rás 2.

Vonar að þetta sé framfaraskref

Borgarnes hefur hann oft heimsótt enda ólst besti vinur hans og náfrændi upp þar og því ekki að undra að bærinn rati í bókina. Hún fjallar um ungan hugsjónarmann sem er fullur af bræði í garð föður síns. Hann verður valdur af alvarlegu slysi og það atvik verður að leyndarmáli á milli hans og systur hans. „Ég held það megi segja að þetta segja að þetta sé ekki beint u-beygja en þetta er talsvert frábrugðið því sem ég hef skrifað til þessa. Ég vona að þetta sé framfaraskref,“ segir hann.

Samkeppnin um athygli fólks orðin mikil

Eftir síðustu bók sína, Aftur og aftur sem kom út 2017, kveðst hann hafa sest niður og velt fyrir sér hvernig hann gæti bætt sig sem höfundur. Hann komst að því að hann gæti gert betur hvað varðar sögufléttuna. „Það er kjánalegt að vera rithöfundur og segjast vilja bæta sig í að segja sögu en mér fannst það,“ segir Halldór. „Í dag er mikil samkeppnin um athygli fólks orðin svo ævintýralega hörð svo ég tel mikilvægt að skrifa sögu sem heldur frá upphafi til enda. Mér fannst skemmtileg áskorun að reyna það.“

Fyrsta kafla bókarinnar er hægt að lesa ókeypis á netinu og þar er söguhetjan stödd á eftirminnilegum fótboltaleik, Ísland - England, í Nice í Frakklandi. „Ég er reyndar einn af þeim fáu sem var ekki á leiknum sjálfur og ég þurfti að reiða mig á frásagnir annarra af umgjörðinni,“ segir Halldór.

Margir eflaust skúffaðir yfir að komast ekki á Berghain

Hann býr í Berlín, hefur verið þar í nokkur ár og unir hann sér vel þar í borg. „Maður er mikið einn og frelsið í þessu og byrðin er fólgin í því að maður er upp á sjálfan sig kominn og sinn eigin yfirmaður,“ segir Halldór. Og inni- og einveruna sem margir eru að upplifa núna vegna heimsfaraldurs þekkir Halldór vel sem rithöfundur. „Það er skrýtið að liggja svona einn yfir handriti í langan tíma og hverfa inn í sinn eigin heim en það sem er gott við Berlín er að hún er sem listamiðstöð Evrópu, hún sogar til sín mikið af listafólki,“ segir hann.

Þar er enda ekki dýrt að búa og gott að ver, að sögn Halldórs. En margir þeirra sem heimsækja borgina um þessar mundir sakna iðandi listalífsins og kannski ekki síst næturklúbbanna sem eru frægir í borginni. „Berghain er samkvæmt heimildum ekki opin,“ segir Halldór sposkur. „Ég held að þar sé ljósmyndasýning núna og það er mikill harmur fyrir Berlín og unnendur þeirrar borgar að þessir frægu næturklúbbar verða ábyggilega með þeim síðustu til að opna í heiminum eftir COVID.“

Sýgst inn í kvíðakastið og heim ranghugmynda

En nú situr hann ekki lengur einn við skriftir því hann er kominn til Íslands sem fyrr segir til að kynna bókina. Hann segir að það sé mikill munur á lífinu í einveru annars vegar og í kynningargírnum hins vegar. „Þessi skipting er alveg svakaleg, ég get ekki dregið tusku yfir það,“ segir hann og hlær. Þegar fólk spurði hann í sumar hvort það væri ekki stressandi að vera með bók á döfinni svaraði hann því neitandi. „Ég sagði nei, nei, ég er búinn að gera þetta þrisvar áður og maður kann þetta. Maður talaði eins og maður væri að fara í fjórða túrinn til Írak en svo sýgst maður inn í kvíðakastið og heim ranghugmyndanna,“ segir hann glettinn. „Það er stórfurðulegt að standa í þessu og erfitt að halda sönsum en maður gerir sitt besta.“

Björg Magnúsdóttir og Gísli Marteinn Baldursson ræddu við Halldór Armand Ásgeisson í Morgunkaffinu á Rás 2.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Í ætt við athyglisbrest samtímans

Bókmenntir

Aftur & aftur - Halldór Armand Ásgeirsson

Bókmenntir

Sterk en ekki gallalaus samtímagreining