Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Eldri borgarar mótmæla 480% hækkun í Hlíðarfjalli

30.10.2020 - 11:42
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson
Félag eldri borgara á Akureyri krefst þess að hækkun á gjaldi vetrarkorta í Hlíðarfjall fyrir eldri borgara verði tekin til endurskoðunar. Vetrarkortin hækka um 480% milli ára.

„Algjörlega siðlaus“

Í nýrri gjaldskrá Hlíðarfjalls kemur fram að vetrarkort til eldri borgara kosti nú 40.500 krónur. Á síðasta ári kostuðu sambærileg kort 7.000 krónur og því nemur hækkunin tæplega 480%. Þessu hefur félag eldri borgara á Akureyri mótmælt með bréfi til bæjarráðs þar sem segir að hækkunin sé algjörlega siðlaus. Þá er þess krafist að gjaldskráin verði endurskoðuð. 

„Samkvæmt lífskjarasamningnum sem gerðir voru á síðasta ári er leyfilegt að hækka þjónustu um 2,5%. Þótt breyting hafi verið gerð á rekstri Hlíðarfjalls, hann færður úr A-hluta bæjarstjórs yfir í B-hluta, er ljóst að þessi hækkun er langt umfram það sem hægt er að kalla eðlilegt. Hópurinn sem nýtir þjónustuna er sá sami og var áður og því er mjög hæpið að svona hækkun sé lögleg. Í það minnsta er hún algjörlega siðlaus. Vinsamlegast sjáið um að þessi hækkun verði tekin til eldurskoðunar og færð í eðlilegt form,“ segir í bréfi Félags eldri borgara. 

Telja ekki tilefni til að endurskoða gjaldskrá

Erindið var tekið fyrir á fundi bæjarins í gær. Þar segir að Bæjarráð telji ekki tilefni til endurskoðunar á gjaldskránni. Þá er Guðmundi Guðmundssyni formanni bæjarráðs falið að setja sig í samband við Hallgrím Gíslason, formann félags eldri borgara. Erindi félagsins má sjá hér að neðan. 

Mynd með færslu
Bæjarráð telur ekki tilefni til endurskoðunar á gjaldskránni