Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ekki útgöngubann og hertar aðgerðir verða kunnuglegar

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Ríkisstjórnin stefnir á að halda fréttamannafund öðru hvoru megin við hádegi til að kynna reglugerð heilbrigðisráðherra um hertar sóttvarnaaðgerðir. Ríkisstjórnin er á fundi um þær núna. „Ég er ekki búin að sjá endanleg drög að reglugerð heilbrigðisráðherra, sem kemur inn á fundinn á eftir, en veit þó um það bil efnisatriðin og get því sagt að það er ekki útgöngubann. Við höfum verið að bæta tilteknum aðferðum og ég hugsa að þetta verði kunnuglegt,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

Heilbrigðisráðherra herti aðgerðir sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu fyrir um þremur vikum og þær hafa ekki skilað tilætluðum árangri.  „Auðvitað vonuðum við, við upphaf þess tíma, að við værum í betri stöðu á þessum tímapunkti. Það liggur fyrir að staðan er ekki góð. Það er samhljómur hjá fagfólki og vísindamönnum sem fást við þetta um að til þess að ná faraldrinum hraðar niður þá þurfum við hertar aðgerðir. Ég held að við séum tilbúin til að takast á við hertar aðgerðir,“ segir Katrín sem var gestur Morgunvaktarinnar á Rás 1 í morgun.

Því skilaði sóttvarnarlæknir tillögum að hertum aðgerðum til heilbrigðisráðherra síðdegis í gær. Hann sagði að tillögurnar næðu yfir þá þætti sem hingað til hefðu verið undir eins og fjöldatakmarkanir og hömlur á ýmsum rekstri. Einnig ætti að skýra tilmæli betur og gera þau aðgengilegri. 

Meiri fyrirsjáanleiki mikilvægur

Aðgerðirnar gilda í tvær eða þrjár vikur ef allt gengur vel. „Við höfum verið að horfa á sóttvarnaraðgerðir til skemmri tíma í senn. Hins vegar er mjög mikilvægt að við höfum meiri fyrirsjáanleika fram í tímann í viðbrögðum. Við þurfum til að mynda aftur að samþykkja lokunarstyrkjafrumvarp á Alþingi. Við viljum senda skýr skilaboð um að ef það þarf að loka rekstri vegna sóttvarnaráðstafana verður komið til móts við það. Þetta er auðvitað eitthvað sem við sáum ekki fyrir í vor en við höfum núna verið að vinna meiri langtíma sýn hvað varðar þessa þætti.“

Atvinnuleysi eitt af stærstu verkefnunum

Stærstu verkefni stjórnmálanna framundan séu að sporna við auknu atvinnuleysi og tryggja að það verði ekki langvarandi. „Þarna skiptir máli að bregðast við, koma atvinnulífinu í heild af stað. Hluti af því sem við höfum verið að undirbúa er hvernig við getum ýtt undir atvinnuvegafjárfestingu í landinu. Hitt sem skiptir máli í þessu er menntunartækifæri. Við vitum að það er ekki nákvæmlega sama hagkerfi sem kemur út úr svona kreppu og var fyrir og þess vegna er mikilvægt að fólk geti skapað sér ný tækifæri.“

Fréttin hefur verið uppfærð með upplýsingum um blaðamannafund ríkisstjórnarinnar.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV