
Dæmdur fyrir steypubílaakstur og bruna á Pablo Discobar
Játaði brot sín greiðlega
Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 19. mars síðastliðnum. Auk þess að stela steypubíl og valda almannahættu er maðurinn dæmdur fyrir íkveikju á skemmtistaðnum Pablo Discobar, vörslu fíkniefna, þjófnaði og fjársvik. Litið var til þess við ákvörðun refsingar að maðurinn játaði brot sín greiðlega, bæði fyrir dómi og að mestu á rannsóknarstigi.
Brotin vöktu mikla athygli í fjölmiðlum
Steypubílnum, sem lögregla veitti eftirför í miðbæ Reykjavíkur, var stolið við Vitastíg. Maðurinn ók niður Laugaveg, eftir Bankastræti og austur Sæbraut og var síðan króaður af við Kassagerðina. Engin slys urðu á fólki. Mikil mildi þótti að ekki fór verr og er maðurinn talinn hafa valdið almannahættu. Manninum var sleppt að lokinni yfirheyrslu.
Handtekinn fyrir íkveikju skömmu eftir eltingaleikinn á steypubílnum
Hann var svo handtekinn aftur tæpri viku síðar grunaður um aðild að eldsvoða í húsakynnum skemmtistaðarins Pablo Discobar og veitingastaðarins Burro við Veltusund.
Allt tiltækt slökkvilið var kallað út, enda er skemmtistaðurinn á þriðju hæð í stóru timburhúsi. Þónokkur eldur logaði í húsinu og mikinn reyk lagði frá því, og um tíma var óttast að eldurinn bærist í samliggjandi hús. Það gerðist þó ekki, slökkvistarf gekk vel. Mikið tjón varð í eldsvoðanum.
