Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Aðgerðir hertar: Aðeins tíu mega koma saman 

Mynd: RÚV / RÚV
Fjöldatakmarkanir til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar færast úr tuttugu manna hámarki niður í tíu, samkvæmt nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra sem kynnt var á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í Silfurbergi í Hörpu í dag og tekur gildi á miðnætti. Allt íþróttastarf verður óheimilt og sviðslistir sömuleiðis.

Hertar aðgerðir taka gildi á miðnætti og gert er ráð fyrir að reglurnar gildi til og með 17. nóvember. Þær verða endurmetnar eftir aðstæðum með hliðsjón af því hvort hægt verði að aflétta þeim fyrr, eða hvort framlenging sé nauðsynleg. 

Reglugerðin byggir á minnisblaði Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis og reglurnar gilda á landinu öllu. Áfram gildir tveggja metra regla og aukin áhersla verður lögð á grímunotkun frá því sem áður hefur verið. Íþróttastarf leggst af með öllu og sundlaugum verður lokað. Krám og skemmtistöðum verður lokað um allt land og veitingastaðir þurfa að loka klukkan 21:00. Börn fædd 2015 og síðar verða undanþegin grímuskyldu og nálægðartakmörkunum.

Undanþágur frá tíu manna samkomutakmörkunum verða gerðar í matvöruverslunum og lyfjaverslunum. 

Íþyngjandi en nauðsynlegar

Svandís segir aðgerðirnar vissulega íþyngjandi en að þær séu því miður nauðsynleg skref til þess að hefta útbreiðsluna. Enn sé hættan á ítrekuðum hópsmitum yfirvofandi.  

Hún minnir á að Landspítalinn sé á neyðarstigi og álagið þar mikið og sívaxandi. Þá segir Svandís að ekki sé ráðrúm til þess að bíða og sjá til og vona það besta. Ef landsmönnum tekst að fylgja reglununm séu allar líkur á því að það verði hægt að slaka á aftur eftir 2-3 vikur.  

Svandís segir að reglurnar séu einfaldar þótt þær séu erfiðar. „Því betur sem við fylgjum þeim, því skemur þurfum við að búa við þær,“ segir hún. 

„Til þess að okkur gangi vel þurfum við að vera ábyrg en líka að sýna umhyggju,“ segir hún og minnir á mikilvægi þess að allir standi saman í baráttunni: „Takmörkum samskipti, hittum eins fáa og við getum. Höldum tveggja metra fjarlægð og notum grímur. Þvoum og sprittum hendur.“ 

Helstu takmarkanir:

Allar takmarkanir ná til landsins alls.
10 manna fjöldatakmörk meginregla.
- Heimild fyrir 30 manns í útförum en 10 að hámarki í erfidrykkjum.
- 50 manna hámarksfjöldi í lyfja- og matvöruverslunum en reglur um aukinn fjölda með hliðsjón af stærð húsnæðisins.
- Fjöldatakmarkanir gilda ekki um almenningssamgöngur, hópbifreiðar, innanlandsflug eða störf viðbragðsaðila.
- Fjöldatakmarkanir gilda ekki um störf ríkisstjórnar, ríkisráðs, Alþingis og dómstóla.
10 manna fjöldatakmörk eiga ekki við þegar fleiri búa á sama heimili.
Íþróttir óheimilar.
Sundlaugum lokað.
Sviðslistir óheimilar.
Krám og skemmtistöðum lokað.
Veitingastaðir með vínveitingaleyfi mega ekki hafa opið lengur en til 21.00.
Grímuskylda þar sem ekki er unnt að tryggja 2 metra nálægðarmörk milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum.
Börn fædd 2015 og síðar undanþegin 2 metra reglu, fjöldamörkum og grímuskyldu (gilti áður um börn fædd 2005 og síðar).

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV