Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

75 ný smit í gær – Hertar aðgerðir kynntar klukkan eitt

30.10.2020 - 11:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Rúnar Ingi Garðarsson - RÚV
75 ný innanlandssmit kórónuveirunnar greindust í gær. Af þeim voru 15 ekki í sóttkví við greiningu. Fimm greindust á landamærunum sem bíða mótefnamælingar. Um tvö þúsund sýni voru tekin innanlands í gær og tæplega fimm hundruð á landamærunum.

64 eru á sjúkrahúsi, þar af fjórir á gjörgæslu. Nýgengi innanlandssmita er nú 213, en var 211,1 í gær. 996 eru í einangrun með COVID-19 og 1.654 eru í sóttkví.

Eins og síðustu daga er mesta fjölgun smita í elsta aldursflokknum, þeirra sem eru 80 ára og eldri. Þrjú smit greindust á Austurlandi, en sá landshluti hefur verið smitlaus í nokkrar vikur. 

Ríkisstjórnin stefnir á að halda fréttamannafund í Hörpu klukkan eitt, til að kynna reglugerð heilbrigðisráðherra um hertar sóttvarnaaðgerðir. Sóttvarnalæknir skilaði tillögum til hennar síðdegis í gær. Fundurinn verður í beinni í sjónvarpi, útvarpi og á ruv.is.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði á Morgunvaktinni á Rás eitt í morgun að hertar aðgerðir verði kunnuglegar og ekki sé verið að boða útgöngubann.

Landspítalinn ákvað í gær að hefja skipulagðar skimanir hjá starfsfólki vegna hópsýkingarinnar sem kom upp á Landakoti.