Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

„Vitum ekki hvað það er skelfilegt að vera að svelta“

29.10.2020 - 21:30
Mynd: EBU / EBU
Vannæring barna í Jemen hefur aldrei verið alvarlegri. Hjálparsamtök hafa sent út áríðandi neyðarkall sem hópur íslenskra ungmenna hefur svarað. Sara Mansour, talskona hópsins, segir við vitum ekki hvað það er skelfilegt að vera að svelta.

Meira en hálf milljón jemenskra barna þjást af bráðavannæringu samkvæmt nýrri greiningu hjálparsamtaka. Ein þeirra er hin átta ára Samar, sem er alvarlega vannærð og vegur einungis níu og hálft kíló. Að mati  UNICEF, sem er barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, er óvíða verra ástand í heiminum af völdum stríðsátaka en í Jemen.

Mynd: EBU / EBU

Hópur íslenskra ungmenna sem hefur áhyggjur af ástandinu hefur blásið til söfnunar fyrir jemensk börn undir yfirskriftinni Deyja úr hungri.  „Við segjum þetta oft; ég er að deyja úr hungri. En við vitum ekki hvað það er skelfilegt að vera að svelta,“ segir Sara Mansour talskona hópsins. 

Þau reyna að ná til annarra ungmenna á samfélagsmiðlum eins og Instagram. Þar bjóða þau upp á matseðil sem fólk getur haft til hliðsjónar. „Til að mynda þá er hægt að kaupa pylsu og kók eða bulsu og kók, og fyrir andvirði þess sem eru c.a. 730 krónur er hægt að kaupa fimmtán jarðhnetumauk,“ segir Sara. 

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Sara Mansour er 24 ára.

Hún segir viðtökurnar ekki hafa staðið á sér. „Það sýnir bara hvað ungt fólk er ótrúlega, jafnvel þó það sé rosalega illa statt í þessum heimsfaraldri, þá einhvernvegin getum við alltaf gefið af okkur sem er ótrúlega fallegt og einkennandi fyrir Ísland.“

„Tíminn er naumur“

Fjármunirnir sem safnast í átakinu renna beint í neyðarsöfnun UNICEF. Birna Þórarinsdótttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi segir að fimm milljónir hafi safnast í þessum mánuði. „Það munar um hverja krónu og ef fólk sendir sms-ið Jemen í númerið 1900 þá gefur það 1.900 krónur. Sú upphæð samsvarar tveggja vikna meðferð fyrir vannært barn. Meðferðin við vannæringu er einföld og árangursrík, ef hún nær til barnanna í tæka tíð. Og tíminn er naumur.“

Sara hefur fullan skiling á því að það sé erfitt fyrir fólk að hugsa út fyrir landsteinana á tímum sem þessum. „Í þessum aðstæðum þá er fullkomlega eðlilegt að fólk sé að líta á sitt nærumhverfi, sína eigin framfærslu og sína eigin möguleika á heilbrigðiskerfi o.s.frv. En við megum samt ekki gleyma að heimurinn fyrir utan er ennþá til og aðstæður sem voru slæmar fyrir COVID hafa eingöngu versnað.“

Í mikilli hættu á að deyja án tafarlausrar meðferðar

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) og Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP)  framkvæmdu greiningu á fæðuöryggi í suðurhluta Jemen. Í þeim héruðum þar sem staðan er verst þjást eitt af hverjum fimm börnum af bráðavannæringu. Greiningin nær til 133 héraða og þar búa um 1,4 milljónir barna undir fimm ára aldri. Við greininguna kom í ljós að bráðavannæring hefur aukist um 10% frá því í september, mesta aukningin er í tilfellum ungra barna sem þjást af alvarlegri bráðavannæringu (SAM). Alls eru 98 þúsund börn undir fimm ára aldri eru í mikilli hættu á að deyja án tafarlausrar meðferðar.

Að auki að minnsta kosti 250.000 barnshafandi konur og konur með barn á brjósti vannærðar. Nú er verið að greina tölur frá norðurhluta landsins og búist er við að staðan þar sé jafn alvarleg.