Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Var vel búinn og vel á sig kominn þegar hann fannst

29.10.2020 - 13:17
Mynd: grafík: Geir Ólafsson / RÚV
Maðurinn sem björgunarsveitir leituðu að í Stafafellsfjöllum í gærkvöld og nótt fannst á ellefta tímanum í morgun. Hann var vel á sig kominn og vel búinn. Hann hélt til í neyðarskýli í nótt á meðan óveður gekk yfir.

Smalar á leið inn í Kollamúla komu auga á manninn og létu björgunarsveitarmenn vita. Leitarhópur var skammt frá og komu þeir manninum til bjargar og til byggða. Hann var vel á sig kominn og vel búinn. Hann hafði verið á gangi síðan um miðjan dag í gær. Hann lenti í mrkri og hélt til í neyðarskýli í nótt.

Björgunarsveitir á Austurlandi voru kallaðar út í gærkvöld til leitar að manninum í Stafafellsfjöllum. Strax í gærkvöld komu fram vísbendingar um ferðir mannsins en skilyrði til leitar voru krefjandi. Drónar og þyrla Landhelgisgæslunnar voru nýtt til leitar en aðstæður fyrir þyrluna voru mjög slæmar að sögn Friðriks Jónasar Friðrikssonar sem stjórnaði aðgerðum í nótt og í morgun.

„Aðstæður til leitar með drónum voru ágætar, en ég fór sjálfur með þyrlunni í nótt. Aðstæður til leitar með þyrlunni voru mjög slæmar.“

En gönguhópa, hvernig voru þær?

„Það var gul veðurviðvörun eins og kemur einstaka sinnum fyrir. Það var rok og rigning í alla nótt. Menn voru að leita þarna þrönga dali og gil.“ segir Friðrik.

Rúnar Snær Reynisson, fréttamaður á Austurlandi ræddi við Friðrik Jónas Friðriksson sem stjórnaði aðgerðum björgunarsveita. Viðtalið má heyra í heild sinni hér að ofan.