Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tímabært að leggja Jafnréttisráð niður

Mynd með færslu
 Mynd: Inspirally
Tímabært er að leggja Jafnréttisráð niður og finna vinnu þess annan farveg. Þetta er mat Samtaka atvinnulífsins sem kemur fram í umsögn þeirra um frumvarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

Frumvarpið er nú til umsagnar en með því eru sett fram ný heildarlög um jafna stöðu og rétt kynjanna sem eiga að koma í stað eldri laga. Samhliða frumvarpi forsætisráðherra er lagt fram frumvarp um stjórnsýslu jafnréttismála. 

Þar er mælt fyrir fækkun fulltrúa í Jafnréttisráði. Nú eru þeir 11, sjö konur og fjórir karlar, en í frumvarpinu er mælt fyrir að fulltrúar í ráðinu verði sex. Forsætisráðherra skipar ráðið eftir hverjar kosningar og núverandi formaður þess er Dr. Silja Bára Ómarsdóttir. 

Hlutverki Jafnréttisráðs er lýst á vef Stjórnarráðsins og þar segir að það starfi í nánum tengslum við Jafnréttisstofu og sé ráðherra og framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu til ráðgjafar við faglega stefnumótun í málum er tengjast jafnrétti kynjanna. Sérstök áhersla skuli lögð á að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði og samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Þá undirbýr Jafnréttisráð jafnréttisþing í samráði við ráðherra og leggur fyrir það skýrslu um störf sín.

 

 

„Fækkun fulltrúa í Jafnréttisráði er jákvæð breyting sem gæti stuðlað að bættri virkni ráðsins miðað við núverandi ástand,“  segir í umsögn Samtaka atvinnulífsins. „Hins vegar hefði, að mati SA, verið tímabært að leggja ráðið niður alfarið og finna vinnu þess annan farveg, til dæmis eingöngu með samráðsvettvangi sem fundar reglulega með aðkomu ráðherra.“