Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Það er svo mikill hversdagsleiki núna“

Mynd: - / Unnur Elísabet

„Það er svo mikill hversdagsleiki núna“

29.10.2020 - 10:41

Höfundar

Hversdagsathafnir verða að listrænum hátíðarviðburði í meðförum þátttakenda listahátíðarinnar Ég býð mig fram III.

Þessi þriðja útgáfa hátíðarinnar ber titilinn Á milli stunda og fer fram á Hafnartorgi. Viðburðurinn er sniðinn sérstaklega inn í hvern krók og kima húsnæðisins og taka alls 16 flytjendur þátt.

Höfundur hátíðarinnar og leikstjóri er Unnur Elísabet Gunnarsdóttir, listamaður, en hún setti fyrri útgáfur hátíðarinnar á svið í fyrra og hittifyrra. „Þetta er allt öðruvísi en sería eitt og tvö. Í þeim var það ég sem bað fólk að búa til örverk sem ég myndi flytja en nú sný ég þessu alveg við og ég er að semja örverkin og leikstýra og fæ með mér alveg frábæra listamenn til að flytja verkin. Þetta eru sem sagt tíu örverk, fólk fær að labba inn í ferðalag og við búum til heim. Þetta eru dansverk, dansleikhúsverk og leikverk. Þetta blandast allt ótrúlega fallega saman og svo er hér líka yndislegur söngur sem ómar í kerfinu,“ segir Unnur Elísabet.

Súrrealísk venjulegheit

Listamaðurinn Krassasig á veg og vanda af leikmynd sýningarinnar sem er innréttuð í öll rými húsnæðisins og tekur mið af þema hátíðarinnar: hversdagsleikanum og litlu stundunum. „Okkur langaði að búa til smá súrrealíska mynd af einhverjum hversdagsleika, ýkja hann og gera kómískan, skemmtilegan. Við töluðum stundum um í ferlinu að við værum að búa til sviðslistaverk inni í myndlistarrými í rauninni,“ segir hann.

Sýningin er svokölluð ferðalagssýning og Krassasig lýsir fyrirkomulaginu þannig: „Áhorfendur ganga hérna inn, verður skipt í hópa og ferðast á milli og skoða öll atriðin fyrir sig.“ Auk þess að hanna leikmyndina og smíða hana, semur Krassasig tónlist hátíðarinnar og kemur fram í einu örverkanna. 

Fyllstu varkárni gætt

Það er vandkvæðum háð að skipuleggja viðburði sem þessa í samræmi við ríkjandi boð og bönn vegna heimsfaraldursins. „Það er búið að vera algjör hausverkur en við ákváðum að fara alla leið og lesa þessar reglugerðir fram og til baka og sníða sýninguna algjörlega að þessum COVID-reglum. Og nú erum við búin að hólfa sýninguna niður í tíu rými, við verðum með merkingar á gólfunum þar sem fólk má standa, tveggja metra reglan, allir áhorfendur verða með grímur og það eru engir snertifletir þannig að þetta ætti að ganga eins og í sögu, sem er mjög gleðilegt að hægt sé að halda einhverja leiksýningu á þessum tímum,“ segir Unnur og bætir við að þá sé einnig búið að tryggja fleiri miðlunarleiðir: „Bara til að fullkomna þetta og búa þessa sýningu algjörlega að COVID-aðstæðum þá erum við að taka hana upp og ætlum að selja inn á link þannig að fólk geti verið heima í stofu undir teppi og horft.“

Að öllu óbreyttu verður listahátíðin sett þann 5. nóvember. Allar nánari upplýsingar má finna hér

 

Tengdar fréttir

Leiklist

Smáréttahlaðborð leikverka