Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Svíar herða tilmæli—íbúum ráðlagt að forðast ræktina

29.10.2020 - 16:54
epa08405054 State epidemiologist Anders Tegnell (C) of the Public Health Agency of Sweden talks with reporters after holding a news conference providing his daily update to the media and general public on the ongoing pandemic of the COVID-19 disease caused by the SARS-CoV-2 coronavirus, in Stockholm, Sweden, 06 May 2020.  EPA-EFE/CLAUDIO BRESCIANI *** SWEDEN OUT
 Mynd: epa
Íbúum í Stokkhólmi og Vestur- og Austur Gautlöndum hefur verið ráðlagt að halda sig sem mest heima og forðast bæði líkamsræktarstöðvar og verslanir. Þá ættu þeir ekki að umgangast aðra en þá sem þeir deila heimili með. Þá eru þeir hvattir til að gera hlé á fundarhöldum og halda sig frá opinberum stöðum eins og söfnum og tónleikastöðum. Smitum hefur fjölgað hratt í Svíþjóð og þar greindust rúmlega 3.200 með kórónuveiruna síðasta sólarhringinn.

Uppsalir og Skánn höfðu þegar sín tilmæli sem ná þó ekki til barna og ungmenna. Þau gilda til 19. nóvember en hugsanlegt er að þau verði framlengd.

Scalaleikhúsið í Stokkhólmi hefur ákveðið að loka vegna hinna nýju tilmæla. „Þótt þetta séu ekki lög þá eru þessar ráðleggingar miklu skýrari en áður. Við viljum sýna ábyrgð,“ hefur SVT eftir eiganda leikhússins.

Maria Rotzén Östlund, starfandi umdæmislæknir sóttvarna í Stokkhólmi, segir á vef SVT að smitum hafi fjölgað um áttatíu prósent á höfuðborgarsvæðinu miðað við síðustu viku. 

Anders Tegnell, sóttvarnalæknir, segir vísbendingar um að faraldurinn sé að færast í aukana. Hlutfall af jákvæðum sýnum sé nú 5 prósent í stað 3 til 4 prósenta. Það bendi til þess að samfélagssmitum sé að fjölga.

Samkvæmt nýjust tölum í Svíþjóð létust sjö af völdum COVID - 19 síðasta sólarhringinn. Rúmlega 5.900 hafa látist úr sjúkdómnum þar. 

Nágrannar Svía í Danmörku hafa einnig hert aðgerðir og landlæknisembættið þar ráðleggur nú Dönum að ferðast ekki til útlanda. Öll lönd nema tvö héruð í Svíþjóð eru metin sem hááhættusvæði. Þau lönd sem bættust við í dag eru Grikkland, Þýskaland og Noregur.