Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Smitum fjölgar hratt á Norðurlandi eystra

Mynd: RÚV / Björgvin Kolbeinsson
Smitum á Norðurlandi eystra fjölgar hratt og tuttugu og fjögur ný smit hafa greinst þar tvo síðustu daga. Varðstjóri í aðgerðastjórn Almannavarna orðar það svo að menn séu nánast á hengifluginu. Heimsóknabann tekur gildi hjá Sjúkrahúsinu á Akureyri á morgun.

Nú eru 64 í einangrun með virkt smit á Norðurlandi eystra og 231 í sóttkví. Öll smitin eru á Eyjafjarðarsvæðinu og nærri helmingurinn á Akureyri. Staðan hefur breyst mikið síðustu vikur, en um mánaðarmót voru þrjú virk smit í fjórðungnum.

„Við erum sannarlega á hengifluginu“

Smitum hefur fjölgað mikið allra síðustu daga. „Það tók dálítinn kipp í gær sérstaklega og svo aftur i dag. Við vorum með 10 smit í gær og 14 í dag,“ segir Hermann Karlsson, aðalvarðstjóri í aðgerðastjórn Almannavarna á Norðurlandi eystra. Hann segir að þessi nýjustu smit séu flest rakin til heimasamkvæmis og jarðarfarar og þá kom upp smit hjá íþróttafélagi. En smit leynist sannarlega víða í samfélaginu. „Þannig að þetta er á þeim stað að við erum sannarlega á hengifluginu ef maður gæti orðað það svo.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Geir Ólafsson

Vandræði af fólki sem virðir ekki sóttkví

Búið var að loka farsóttahúsi sem opnað var á Akureyri strax í fyrstu bylgju faraldursins. Það hefur nú verið opnað aftur og þar dvelja sjö einstaklingar fimm í einangrun og tveir í sóttkví. En lögreglan hefur þurft að hafa afskipti af smituðu fólki sem virðir ekki sóttkví. „Því miður þá eru bara ákveðnir aðilar í samfélaginu sem eru ekki dags daglega að fylgja þessum helstu leikreglum. Og það breytist ekkert þó það sé Covid,“ segir Hermann. „Við reynum virkilega að tryggja að þeir séu ekki á þvælingi og sinni því sem þeir eiga að gera. Og það gengur ágætlega en samt koma tilvik sem eru erfið og með miklu flækjustigi.“

Gæti þurft að auka enn frekar viðbúnað á SAk

Í þessari bylgju hefur enginn Covid-smitaður verið lagður inn á Sjúkrahúsið á Akureyri. Þar er bæði aðstaða og mönnun til að taka við Covid-sjúklingum, en þann viðbúnað gæti nú þurft að auka. „Við höfum áætlanir, ef þess þarf, að gera það. Þannig að það fer eftir því hvað að okkur berst í raun og veru,“ segir Sigurður E. Sigurðsson, framkvæmdastjóri lækninga.

Heimsóknabann frá og með morgundeginum

Í dag bárust fyrirmæli frá stjórnvöldum um að hætta valkvæðum skurðagerðum sem geta beðið í átta vikur eða lengur og þurfa á svæfingum að halda. En Sigurður segir að stjórnendum SAk lítist þannig á ástandið að herða aðgerðir enn frekst. „Frá og með morgundeginum þá verðum við að setja á heimsóknabann á sjúkrahúsið. En þó verða undantekningar í mannúðartilfellum. Og frá og með mánudeginum þá drögum við enn frekar úr annarri valkvæðri þjónustu sem má bíða í átta vikur eða lengur.“