Íslensk tónlistarsena hefur vakið heims athygli. Síðustu misseri hefur þó mest gróska verið í hipp hopp-i með áherslu á innanlandsmarkað. Í dag er þó eitthvað allt annað að gerjast, meira rokk, hrárri tónlist og öðruvísi textasmíð er að ryðja sér til rúms.
Í þessum fyrsta þætti af Undirtónum kynnumst við hljómsveitinni Kælunni miklu. Hljómsveitina skipa þær Laufey Soffía Þórsdóttir sem syngur, Margrét Rós Dóru Harrýsdóttir sem spilar á bassa og syngur og Sólveig Matthildur Kristjánsdóttir sem spilar á hljómborð og syngur.
Stelpurnar rifja upp sitt fyrsta gigg en það var í Vinnslunni úti á Granda þar sem mikið af listafólki vinnur. Meðlimir Kælunnar fékk aðgang að herbergi í kjallara, máluðu herbergið og fylltu af alls kyns sjávarhlutum og voru þar með gjörning. Þær spiluðu þar fjögur lög sem þær áttu og lögðust svo í dvala á milli laga. Þar seldu þær sitt fyrsta „merch“ sem var dauður fiskur sem þær fundu í fjöru og seldu hann fyrir fimmhundruð krónur.