Seldu dauðan fisk á fyrstu tónleikunum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV núll - Kælan Mikla

Seldu dauðan fisk á fyrstu tónleikunum

29.10.2020 - 13:38
Þær kynntust í Menntaskólanum við Hamrahlíð en eftir að hafa tekið þátt í ljóðaslammi Borgarbókasafnsins urðu þær að hljómsveit. Þær hafa á fjórum árum gefið út fjórar breiðskífur og vinna um þessar mundir að sinni fimmtu með Barða Jóhannssyni sem oft er kenndur við Bang Gang. Kælan mikla eru fyrstu gestir nýrrar þáttaraðar sem ber heitið Undirtónar.

Íslensk tónlistarsena hefur vakið heims athygli. Síðustu misseri hefur þó mest gróska verið í hipp hopp-i með áherslu á innanlandsmarkað. Í dag er þó eitthvað allt annað að gerjast, meira rokk, hrárri tónlist og öðruvísi textasmíð er að ryðja sér til rúms. 

Í þessum fyrsta þætti af Undirtónum kynnumst við hljómsveitinni Kælunni miklu. Hljómsveitina skipa þær Laufey Soffía Þórsdóttir sem syngur, Margrét Rós Dóru Harrýsdóttir sem spilar á bassa og syngur og Sólveig Matthildur Kristjánsdóttir sem spilar á hljómborð og syngur.

Stelpurnar rifja upp sitt fyrsta gigg en það var í Vinnslunni úti á Granda þar sem mikið af listafólki vinnur. Meðlimir Kælunnar fékk aðgang að herbergi í kjallara, máluðu herbergið og fylltu af alls kyns sjávarhlutum og voru þar með gjörning. Þær spiluðu þar fjögur lög sem þær áttu og lögðust svo í dvala á milli laga. Þar seldu þær sitt fyrsta „merch“ sem var dauður fiskur sem þær fundu í fjöru og seldu hann fyrir fimmhundruð krónur. 

Stefán Magnússon rekur veitinga- og tónleikastaðinn Hard Rock og skipuleggur einnig tónleika af ýmsu tagi. Hann hefur verið viðloðinn íslensku tónlistarsenuna í áraraðir.  Hann er upphafsmaður rokkhátíðarinnar Eistnaflugs. Stefán segir að þessi geiri sé skemmtilegur en hann sé þó enn að berjast við það að fá hljómsveitir til sín að spila á Hard Rock. „Þetta er einn stærsti tónleikastaður miðborgarinnar,“ segir Stefán.

Pöntuðu limmósínu fyrir tónleika
Stelpurnar rifja upp þegar þær ákváðu að panta limmósínu fyrir tónleika. „Við vorum mörg að spila saman og ákváðum að gera eitthvað flippað, lögðum þúsund krónur á mann og fórum í limmósínu fyrir tónleikana,“ segir Sólveig Matthildur. Þær keyrðu nokkra hringi um bæinn, voru með gjallarhorn þar sem þær kölluðu að það væru tónleikar á Gauknum. „Síðan fórum við á Dominos í limmósínunni og ætluðum að panta eina pítsu fyrir tónleikana en áttum ekki nóg fyrir henni og það var bara sorglegasta móment lífs míns,“ segir Margrét Rós.

Þær segja að þær fái oft þá spurningu frá fólki hvort þeim finnist halla á konur í þessari senu eða hvort þeim finnist einhver munur á stöðunni frá því þær byrjuðu og núna. 

„Það á ekkert að skipta máli að við séum allar stelpur. Þú veist við vorum aldrei eitthvað; hey eigum við að stofna stelpuhljómsveit?“ segja þær.

Þeim finnist frábært ef þær geta haft áhrif eða hvatt stelpur til að gera það sem þær vilja, ekki vera hræddar við að mistakast og ekki láta neinn segja sér hvað þær eigi að gera. Þær segja að þegar þær byrjuðu hafi þær ekkert kunnað en núna kunni þær fullt.  

Horfðu á fyrsta þáttinn af Undirtónum í heild sinni í spilara RÚV með hlekknum hér að ofan. Undirtónar eru nýir þættir úr smiðju RÚV núll þar sem Lovísa Rut Kristjánsdóttir kynnist tónlistarmönnum og -konum sem skara fram úr í nýrri íslenskri tónlist. Í þessum fyrsta þætti spjallar Lovísa við hljómsveitina Kæluna miklu og einnig Stefán Magnússon sem rekur veitinga- og tónleikastaðinn Hard Rock.