Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Sagan af Washington Black - Esi Edugyan

Mynd: Forlagið / Forlagið

Sagan af Washington Black - Esi Edugyan

29.10.2020 - 10:44

Höfundar

Bók vikunnar á Rás 1 er skáldsagan Sagan af Washington Black eftir kanadíska rithöfundinn Esi Edugyan. Hún er óhugnanleg lýsing á þrælahaldi í Karíbahafinu og þroskasaga ungs manns í leit að frelsi og tilgangi en einnig spennandi ferðasaga þar sem andi ævintýraleiðangra franska rithöfundarins Jules Verne svífur yfir vötnum. Edugyan var tilnefnd til Man Booker verðlaunanna fyrir bókina árið 2018.

Sagan gerist á fyrri hluta 19. aldar og fjallar um líf þræla á sykurplantekru á Barbados í Karíbahafi. Þar er tilvera þrælanna eins og við má að búast hreinasta víti á jörð og versna málin á plantekrunni þegar nýr húsbóndi tekur við völdum. Sögumaðurinn er 11 ára drengur, þrællinn Washington Black. Við húsbóndaskiptin er hann valinn til þess að þjóna bróður nýja húsóndans sem er sérlundaður vísindamaður. Sá reynist þó vera góðhjartaður og með þeim takast vinabönd. Drengurinn aðstoðar hann við ýmisar rannsóknir og vísindastörf og upp hefjast ferðalög um víða veröld. En í grimmúðlegum heimi nýlendutímans er hvergi rúm fyrir vináttu af þessu tagi, eins og segir á káputexta íslensku útgáfunnar. 

Esi Edugyan er kanadísk og ættuð frá Ghana. Hún hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir sín verk þar á meðal hin kanadísku Giller Prize í tvígang, nú síðast fyrir Washington Black. Sagan af Washington Black var einnig tilnefnd til Man-Booker verðlaunanna árið 2018 og fjölmörg blöð og tímarit vestanhafs sögðu hana vera ein af bestu bókum ársins 2018.

Viðmælendur í Bók vikunnar á sunnudag verða Gísli Pálsson mannfræðingur og rithöfundur og Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor í spænsku við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands sem hefur meðal annars rannsakað bókmenntir Rómönsku Ameríku.

Heyra má viðtalsbrot við Ólöfu Pétursdóttur, þýðanda bókarinnar í spilaranum hér að ofan og lestur úr bókinni.