Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Rúmlega 70 missa vinnuna í tveimur hópuppsögnum

Mynd með færslu
 Mynd: Vinnumálastofnun
Vinnumálastofnun hefur borist tilkynningar um tvær hópuppsagnir sem taka eiga gildi núna um mánaðamótin. Annars vegar er um að ræða fyrirtæki í veitingageiranum og hins vegar fyrirtæki í verslunarrekstri.

Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar segir í samtali við Fréttastofu RÚV að í annarri uppsögninni hafi 35 misst vinnuna og í hinni hafi þeir verið 36. Hún segir líklegt að stofnuninni eigi eftir að berast fleiri tilkynningar um hópuppsagnir fyrir þessi mánaðamót.

Í síðasta mánuði var Vinnumálastofnun tilkynnt um níu hópuppsagnir þar sem 324  manns misstu vinnuna. Átta af þessum hópuppsögnum voru í ferðaþjónustu og ein í mannvirkjagerð.

Í ágúst misstu 284 vinnu sína í fjórum hópuppsögnum ogí  júlí var alls 381 starfsmanni sagt upp í hópuppsögnum hjá fjórum fyrirtækjum.