Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

„Rigningin í Tungunum er alltaf góð“

Mynd: RÚV / Kiljan

„Rigningin í Tungunum er alltaf góð“

29.10.2020 - 14:36

Höfundar

Bjarni Harðarson hefur nú lokið við að skrifa þríleik sinn um Skálholtsstað. Þriðja skáldsagan kom út á dögunum og heitir einfaldlega Síðustu dagar Skálholts.

Þriðja sagan í bálki Bjarna fjallar um endalok Skálholtsstaðar sem Biskupstóls. „Ég er að skrifa um ráðleysið og stjórnleysið sem hérna verður undir lok 18. aldar,“ segir Bjarni í Kiljunni. „Þetta voru ekki bara erfiðir tímar út af móðurharðindunum heldur líka algjöru stjórnleysi. Síðasti Skálholtsbiskupinn er húsvilltur, á hvergi heima.“ Saga Hannesar Finnssonar síðasta skálholtsbiskupsins endar á þann veg að hann fær kvef og lungnabólgu og deyr á besta aldri. „Þetta er saga full af óreiðu og ég reyni að blanda inn í þetta því sem var stórt á þeim tíma, eins og nikurinn í Vörðufelli, og segi söguna út frá vinnufólkinu.“

Að sögn Bjarna var margt merkilegt sem gerðist í Skálholti á síðustu áratugum biskupsstólsins en hann tekur sér þá líka ákveðið skáldaleyfi. Í móðurharðindum var mikið af förufólki í nauð sem barði dyra í Skálholti. „Það er mikill ágangur. Það er ekkert mikið skrifað um það en það kemur fram í heimildum að Finnur biskup þykir naumur á útlát til förumanna.“ Það sé hins vegar vel skiljanlegt í ljósi þess að þarna ríða yfir einhverjir mestu hörmungartímar sem þjóðin hefur staðið frammi fyrir. „Stór hluti þjóðarinnar féll úr harðindunum og dó náttúrulega ekki allt inni í baðstofum heldur hér úti um hagana, úti um allt. Ég reyni að draga upp mynd af þessu.“

Í bókinni fjallar Bjarni meðal annars um valdaættir eins og Stefánungana en helst reynir hann þó að fjalla um hvernig þessi erfiðistímar hafa áhrif á almúgafólk. Bjarni er sjálfur ættaður af næsta bæ við Skálholt. „Ég var mikið hérna í hlöðunum í Skálholti, og þrátt fyrir trúleysið þá urðum ég og Guðmundur Óli Ókafsson, sóknarpresturinn sem var þá. afskaplega kærir vinir.“ Bjarni lærði margt um Skálholt frá honum og öðrum eldri mönnum úr sveitinni. „Þeir fengu það einhvern veginn inn í mig að þetta væri kynngimagnað land, og mér finnst það enn þá. Þó að mig skorti þennan neista að trúa að það hafi með einhvern guð að gera. En kannski er það svo, kannski hef ég bara ekki fundið fyrir honum eins og þessi gömlu menn gerðu.“

Að lokum fór skólinn frá Skálholti og síðan biskupsstóllinn til Reykjavíkur. „Hér verða eftir bændur. Ég enda söguna þar, sem sumir tala um sem niðurlægingarskeið. En það búa hérna gildir bændur á 19. öldinni. Það er svolítið gaman að hugsa hver sé munurinn á staðnum þegar ekki er lengur neinn maður með prófgráðu eða blátt blóð?“ Egill Helgason ræddi við Bjarna Harðarson í rigningasudda fyrir utan Skálholt en hann lét veðrið ekkert á sig fá. „Rigningin í Tungunum er alltaf góð.“

Egill Helgason Ræddi við Bjarna Harðarson í Kiljunni.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

„Við komum hingað sjálf í erindaleysu“

Innlent

Pílagrímar ganga á Skálholtshátíð

Bókmenntir

Rammpólitísk skáldalæða gefur út ljóðabók

Menningarefni

Menningarverðmæti í hættu í Skálholti