Nýtt frá GusGus + Vök og Karitas Hörpu + Svavari Knúti

Mynd: Oroom / GusGus

Nýtt frá GusGus + Vök og Karitas Hörpu + Svavari Knúti

29.10.2020 - 15:00

Höfundar

Í Undiröldunni að þessu sinni fáum við ný samstarf frá GusGus og Vök og Karitas Hörpu og Svavari Knúti auk nýrra laga frá hressu krökkunum í Mammút, nýliðunum í Greyskies, Rúnari Þóris, Hringfara og hinum mexíkóska Anderveil í samstarfi við Sóleyju.

GusGus + Vök - Higher

Hljómsveitin GusGus er 25 ára og Danni og Biggi sem betur fer ekkert að þroskast, í það minnsta ef marka má nýja söngulinn Higher sem kemur út á morgun. Lagið gefur tóninn fyrir nýju plötuna sem kemur út á næsta ári og er unninn í samstarfi við Margréti Rán sem kennd er við hljómsveitina Vök.


Mammút - Pow Pow

Hljómsveitin Mammút hefur sent frá sér sína fimmtu breiðskífu og gripurinn nefnist Ride the Fire. Upphaflega planið hjá sveitinni var að gefa plötuna út í vor sem gekk ekki upp út af dálitlu þannig að því var frestað um óákveðinn tíma. Á dögunum nennti síðan Mammút ekki að bíða lengur og dúndraði Ride the Fire út í kosmósið.


Karitas Harpa + Svavar Knútur - I Love You

Lagið I Love You er af væntanlegri plötu Karitasar Hörpu. Það er þriðja smáskífa plötu sem kemur út um miðjan janúar. Að sögn flytjenda er I Love You angurvært lag um ást og missi. Með Karitas Hörpu í laginu er Svavar Knútur sem syngur og spilar á ukulele.


Greyskies - Numb

Steinar Baldursson er 25 ára lagahöfundur og pródúsent en hann var að gefa út lagið Numb undir listamannsnafninu Greyskies. Numb er fyrsta lagið af ellefu laga plötu sem kemur út á næsta ári hjá Öldu en þar spilar Steinar á flest hljóðfæri og nýtur aðstoðar frá Pálma Ragnari Ásgeirssyni.


Rúnar Þórisson - Allt það besta

Nýjasti söngull af plötu Rúnars Þórissonar Allt það besta er tekin af plötu hans Ferjumanninum sem kom út í sumar. Titill plötunnar vísar í gríska goðafræði í frásögn af ferjumanninum Karon sem flutti sálir látinna í nýjan heim.


Hringfari - Heimsendi

Tónlistarmaðurinn Teitur Björgvinsson hefur sent frá verkið Hringfari undir sama nafni. Teitur spilar á flest hljóðfæri sjálfur en hans aðalaðstoðarmaður er James Paul Bunton á slagverk en fjöldi annarra leggur hönd á plóg.


Andervel, Sóley - No Sé

Í gær kom út platan Noche sem er stuttskífa mexíkóska tónlistarmannsins José Luis Anderson sem starfar undir nafninu Andervel. José býr og starfar hér á landi og hefur fengið til liðs við sig á plötunni valinkunna íslenska tónlistarmenn, til dæmis Sóley Stefánsdóttur sem er með honum í laginu No Sé, og Jóa Pé.