Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Næstflestu hópsmitin tengd Ölduselsskóla

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Að hópsmitinu á Landakoti frátöldu er næstfjölmennasta hópsmitið tengt Ölduselsskóla í Reykjavík. 44 smit eru tengd skólanum. Skólahald hófst aftur í morgun. 

23 nemendur smitaðir og 7 starfsmenn

Elínrós Benediktsdóttir skólastjóri Ölduselsskóla segir að sjö starfsmenn og 23 nemendur hafa smitast en að hin fjórtán smitin séu afleidd smit. Strangari sóttvarnareglur eru nú í Ölduselsskóla. Þar hefur verið skipt niður í fleiri hólf en krafist er. Nemendur fá mat inn í stofur því matsal hefur verið lokað. Starfsmenn eru með grímur  í sameiginlegum rýmum. Fjórar kaffistofur eru í stað einnar. Og unglingastigi er skipt niður í frímínútur þannig að aðeins einn árgangur fer í frímínútur inni í einu.

Börnin æðrulaus og fljót að átta sig á aðstæðum

Guðmundur Magnús Daðason formaður foreldrafélagsins segir að upplýsingagjöf skólans og samvinna hafi verið til fyrirmyndar:

„Fólki er fyrst og fremst brugðið yfir þessum tölum en það eru samt allir rólegir. Maður skynjar ekki annað og fyrst og fremst hugsar fólk kannski bara hlýtt til allra þeirra sem hafa smitast. Það  er allra barnanna og ekki síður til starfsfólksins sem hefur náttúrulega staðið í framlínunni alveg síðan í vor,“ segir Guðmundur Magnús.

Finnst þér börnin hrædd?

„Nei, ég upplifi það nú svo sem ekki. Þau taka þessu kannski heilt yfir af æðruleysi. Börn eru nú bara ansi klók og fljót að átta sig á aðstæðum.“