Hæsta viðbúnaðarstigi hefur verið lýst yfir í Frakklandi eftir að öfgamaður varð þremur að bana með hnífi eða sveðju í kirkju í borginni Nice. Yfir sjö þúsund hermönnum verður falið að vera á verði, einkum við kirkjur og skóla.
Emmanuel Macron forseti kom síðdegis á staðinn þar sem ódæðið var framið í morgun. Hann sagði að árás á Frakkland stæði yfir. Þar af leiðandi hefði verið lýst yfir hæsta viðbúnaðarstigi. Fjöldi hermanna sem sæju um að gæta öryggis landsmanna yrði tvöfaldaður og athyglinni einkum beint að nánasta umhverfi við kirkjur og skóla.
Yfirvöld í Frakklandi greindu frá því síðdegis að árásarmaðurinn sé 21 árs innflytjandi frá Túnis. Hann kom yfir Miðjarðarhaf fyrir nokkrum vikum til ítölsku eyjarinnar Lampedusa. Eftir að hafa verið þar í sóttkví kom hann til Frakklands í byrjun þessa mánaðar.
Tvær aðrar árásir hafa verið framdar í dag. Önnur í Avignon, þar sem maður ógnaði lögreglumönnum með skammbyssu og var skotinn til bana. Þá særðist öryggisvörður í hnífaárás við skrifstofur ræðismanns Frakklands í Jedda í Sádi-Arabíu. Árásarmaðurinn var yfirbugaður og handtekinn. Öryggisvörðurinn var fluttur á sjúkrahús. Hann er ekki talinn í lífshættu.