Leit stendur enn yfir að manni við Stafafellsfjöll í Lóni. Nú eru um 40 björgunarsveitarmenn við leit. Búið er að stækka leitarsvæðið og nær það nú frá Hoffelli að Stafafelli.
Friðrik Jónas Friðriksson stjórnar aðgerðum björgunarsveita á svæðinu. Hann segir að nú sé orðið bjart og að um 40 manns séu komnir út til leitar. Hluti þess svæðiss sem leitað var á í myrkri í gærkvöldi verði endurleitað.
Björgunarsveitir á Austurlandi voru kallaðar út um klukkan átta í gærkvöld til að leita mannsins. Bíll hans fannst í gærkvöld. Í nótt var svo óskað eftir liðsauka frá björgunarsveitum á Suðurlandi og frá Egilsstöðum og eru þær ýmist komnar á staðinn eða væntanlegar.
Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur aðstoðað við leitina auk þess sem hún flutti sporhund á vettvang frá Reykjavík. Einnig hafa drónar verið notaðir við leitarstörfin.