Kvenfélagskonur passa upp á garðinn

Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV/Landinn

Kvenfélagskonur passa upp á garðinn

29.10.2020 - 09:49

Höfundar

„Hér kemur fólk, fær sér kaffi, kemur með nesti, heldur afmæli, giftir sig jafnvel hér, lætur taka brúðamyndir. Þetta er perlan í miðbænum í dag," segir Helga Magnea Steinsson, formaður Kvenfélagsins Nönnu á Neskaupsstað. 

Landinn leit við í skrúðgarðinn í sumar þegar kvenfélagskonur voru í óða önn að dytta að garðinum. Undanfarin ár hafa þær komið saman allavega einu sinni á ári undir yfirskriftinni rassinn upp í loft - þar sem tilgangurinn er að sinna umhirðu í garðinum sem var reyndar upphaflega gerður fyrir tilstilli kvenfélagsins. 

„Kvenfélagið var stofnað 1907, þannig það er mjög gamalt félag. Þær voru búnar að velta fyrir sér að geta einhvers staðar gróðursett blóm og tré. Svo er það í skipulagi bæjarins, fyrir 1934 sem Kvenfélaginu er úthlutaður þessi reitur til ræktunar 1934. Þá er þetta bara melur," segir Helga og tekur fram að það hafi verið þrekvirki unnið við að gera garðinn fínan.

„Það er mikill hæðarmismunur hérna sem sést hérna. Þá var garðurinn þetta hár. Hann var grafinn allur niður og stallaður á löngum tíma. Það voru ekki kvenfélagskonur sem gerðu það heldur fengu þær mikinn brautryðjanda í garðrækt, Eyþór Þórðarson, sem var þá kennari hér, til að hanna garðinn, sem hann gerði ásamt öðrum."