Kostar 354 milljónir að gera við sögufrægan skóla

29.10.2020 - 22:23
Mynd með færslu
 Mynd: Tækniskólinn - RÚV
Borgarráð samþykkti í dag að kaupa hlut ríkisins í Vörðuskóla sem stendur við hlið Austurbæjarskóla. Skólinn var teiknaður af Guðjóni Samúelssyni en hefur staðið auður í eitt og hálft ár. Húsnæðið er 3.229 fermetrar með íþróttasal og búningsklefum og er kaupverðið um 260 milljónir. Viðgerðarkostnaður er hins vegar metinn á 354 milljónir.

Fram kemur í greinargerð sem lögð var fyrir borgarráð í dag að menntamálaráðuneytið hafi verið með umráð yfir húsinu og viðhaldi verið ábótavant.

Reykjavíkurborg hafi áður óskað eftir því að ríkið skilaði húsnæðinu svo nýta mætti það undir starfsemi Austurbæjarskóla og nú hafi verið komist að samkomulagi um að ganga frá kaupum og afhendingu.

Í úttekt ráðgjafafyrirtækisins Valsberg á húsinu kemur fram að það hafi ekki verið í notkun í 18 mánuði og litlu viðhaldi sinnt í þann tíma. Leggja þurfi umtalsverða vinnu í að standsetja húsnæðið til notkunar undir kennslu og skólastarf.

Fyrst og fremst þurfi að endurnýja gólfefni ásamt því að gera við leka og rakaskemmdir. Þá er mælt með endurnýjun loftræsiskerfis og bæta þurfi ljós-og hljóðvist í kennslustofum. 

Í úttektinni kemur jafnframt fram að viðgerðir á gluggum hússins séu stór kostnaðarliður.  Til skoðunar sé að skipta þeim út á suður-og austurhlið. Það hafi í för með sér aukinn kostnað vegna skemmda á steiningu umhverfis gluggana og aukna múrvinnu.  Niðurstaða matsins sé sú að nauðsynlegar viðgerðir muni kosta um 354 milljónir.

Meirihlutinn sagði í bókun sinni að Vörðuskóli væri mikilvægt mannvirki. Húsið væri nauðsynlegt ef byggja ætti upp safnskóla á unglingastigi í ljósi fjölgunar íbúa í hverfum kringum skólann.

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, fagnaði kaupunum og sagði þetta „frábærar fréttir í alla staði.“ Hún vonaðist  til að útboðsmál og framkvæmdir yrðu faglegar og innan fjárhagsramma. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við afgreiðslu málsins.

 

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV