Hótuðu pilti með hnífi, börðu hann og rændu

29.10.2020 - 11:38
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Tveir grímuklæddir menn veittust að tveimur ungmennum sem sátu í bíl við Langholtskirkju í gærkvöld. Mennirnir hótuðu ökumanninum lífláti, börðu hann og rændu öllu lauslegu úr bílnum, þar á meðal fötum hans. Lögreglan lýsir eftir vitnum í málinu.

Vakin var athygli á málinu í Facebook hópi Langholtshverfis í gærkvöldi. Tvö ungmenni, 18 ára piltur og 16 ára stúlka, sátu í bíl piltsins þegar tveir grímuklæddir menn um tvítugt rifu upp hurð bílsins og réðust að þeim.

Mbl.is ræddi við móður stúlkunnar. Að hennar sögn var ungmennunum mjög brugðið og líklega hafi pilturinn fengið heilahristing eftir barsmíðar mannanna.

Stúlkunni tókst að flýja en árásarmennirnir börðu piltinn og hótuðu honum með hnífi. Hún segir þá hafa lagt hníf að hálsi piltsins og skipað honum að hafa hendur á stýrinu. Þeir hafi hótað honum á meðan þeir tæmdu bílinn af verðmætum. Meðal annars hafi þeir skipað honum að fara úr peysu og skóm og höfðu það á brott með sér. 

Eftir að þeir létu sig hverfa komst drengurinn í nærliggjandi hús á sokkaleistunum og kallaði til lögreglu. Árásarmennirnir tóku einnig bíl- og húslykla piltsins. Því hafi hann ekki viljað dvelja einn heima hjá sér í nótt.

Nú á tólfta tímanum sendi lögreglan frá sér eftirfarandi tilkynningu:

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar tveggja manna vegna rannsóknar hennar á ráni í Sólheimum við Langholtskirkju á níunda tímanum í gærkvöld, en tilkynning um málið barst kl. 20.20. Tveir, grímukæddir menn komu að bifreið sem þarna var og bæði ógnuðu fólkinu sem í henni var með eggvopni og slógu til ökumannsins sem hlaut áverka af. Síðan rændu þeir nokkru af munum úr bifreiðinni.

Þeir sem búa yfir vitneskju um málið eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000, en upplýsingum má einnig koma á framfæri í tölvupósti á netfangið [email protected]  eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV