„Ég er sjúk í unglingana“

Mynd: Gígja Hólmgeirsdóttir / RÚV

„Ég er sjúk í unglingana“

29.10.2020 - 14:27

Höfundar

Grunnskólakennarinn Ólöf Ása Benediktsdóttir fékk viðurkenningu sem framúrskarandi kennari á Íslensku menntaverðlaununum. Að gerast kennari var þó aldrei ætlunin hjá henni en örlögin gripu í taumana og nú segist hún vera sjúk í unglingana sem hún kennir alla daga í Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit.

„Það er bara mjög góð tilfinning, ég er stolt og ánægð. Þetta var náttúrulega óvænt,“ segir Ólöf Ása um viðurkenninguna sem hún fékk nýverið. Ólöf Ása var gestur í Sunnudagssögum þar sem hún fór meðal annars yfir hvernig hún endaði á því að skrá sig í kennaranám við Háskólann á Akureyri, en námið var ekki æskudraumur Ólafar Ásu. „Það var ekki á dagskránni. Kannski af því að pabbi er kennari, eins og öll mín föðurfjölskylda meira og minna,“ segir hún. Mörgum þyki starfið ekki bera merki um metnað og sárafáir nemendur hennar segjast ætla í kennaranám. Það sé alltof algengt viðhorf að fólk líti svo á að kennarar séu „bara“ grunnskólakennarar. 

Eftir framhaldsskólaútskrift lá leiðin til útlanda. Hönnun og listir höfðu alltaf heillað Ólöfu Ásu og hún skráði sig í nám í innanhúshönnun í Flórens á Ítalíu. Eftir fyrsta veturinn í Flórens kom hún heim til að vinna um sumarið. Vinnan reyndist örlagavaldur í lífi hennar þar sem hún kynntist eiginmanni sínum þá um sumarið. Þau hittust fyrst á Kaffi Akureyri þar sem Ólöf Ása var að vinna. „Pínu ást við fyrstu sýn,“ segir Ólöf Ása um eiginmanninn. Þau ákváðu svo að láta reyna frekar á sambandið, voru komin með leið á fjarsambandi og hún flutti því aftur til Akureyrar.

Á Akureyri sótti Ólöf Ása um nokkur störf án árangurs og ákvað því að skrá sig í nám við Háskólann á Akureyri. Aðeins var boðið upp á fjórar námsbrautir, hjúkrunarfræði, viðskiptafræði, sjávarútvegsfræði og kennaranám. Með því að nota útilokunaraðferðina endaði hún í kennaranáminu. „Ég fann fljótlega að ég átti erindi. Mér fannst námið skemmtilegt,“ segir Ólöf Ása.

Frá því að hún útskrifaðist hefur hún starfað í Hrafnagilsskóla sem var þó ekki hennar fyrsta val. „Ég fékk starf í Hrafnagilsskóla, í Eyjafjarðarsveit, af því ég fékk ekki starf á Akureyri, byrjaði á að sækja um hér í öllum skólunum,“ segir hún. Eftir að hafa verið synjað um starf hjá grunnskólum á Akureyri sótti hún um í sveitunum í kring og fékk starfið í Hrafnagilsskóla. Þar byrjaði hún að kenna 8. bekk og hún var afar stressuð þegar hún byrjaði að kenna. Stressið var þó fljótt að hverfa þegar hún áttaði sig á hversu skemmtilegt var að kenna unglingunum. 

Með opna buxnaklauf í grænni brók

Hún hefur upplifað margt skemmtilegt í starfinu sem oft skrifast á hversu utan við sig hún getur verið. Nýlega rifjaði hún upp atvik frá fyrsta kennsluvetrinum sínum. Henni fannst þá nemendur hennar haga sér hálf undarlega einn daginn. „Ég var upp við töfluna eins og leikari á sviði og er að tala og baða út öllum öngum að reyna að segja eitthvað af viti. Þau eru rosalega skrýtin krakkarnir, þau eru alveg steinrunnin,“ segir Ólöf Ása og taldi að krakkarnir væru feimnir þar sem ungur kennaranemi sat aftast að fylgjast með kennslunni. „Ég var í Diesel-gallabuxum eins og voru í tísku, ég var með hendur í vösum og graflaði út vasana. Svo endaði með því að ein stúlkan var hugrökk og kom til mín. Þá var ég með opna buxnaklauf og í skærgrænni brók. Svoleiðis reif alltaf upp buxurnar. Þetta var alveg hræðilegt. Ég fór inn á klósett og grenjaði þegar þessi tími var búin. Þetta var eins og í bíómynd,“ segir Ólöf Ása sem hlær þó að atvikinu í dag. 

Eins og með önnur störf fylgja ýmsar áskoranir kennarastarfinu. Ólöf Ása segir mikilvægt að gera ekki upp á milli barna og minna sig reglulega á við hvað hún sé að vinna. „Maður er ekki sálfræðingur, maður er ekki þetta og hitt. Ég er kennari, ég er ekki besti vinur þeirra, ég er ekki mamma þeirra,“ segir Ólöf Ása. Hún segir einnig nauðsynlegt að trúa alltaf á það góða í öllu, bæði börnum og fullorðnum. Erfiðast sé oft að draga línu hversu langt tengslin mega ná. „Það gerist annað slagið að maður tengist einhverjum, þannig er það bara að vinna með fólki. Viðkomandi á kannski erfitt í einkalífinu, það er áskorun að setja línu. Ég kemst ekki lengra, ég fer ekki lengra. Það er annarra að fara lengra inn í þetta mál. Það er mikil áskorun,“ segir Ólöf Ása. 

„Ég er sjúk í unglingana“  

Ólöf Ása hefur kennt unglingum allan sinn kennsluferil og segist vera sjúk í þá. „Það er eitthvað við unglingana, þau eru svo opin, þau eru svo á lífi, það er svo mikill kraftur í þeim. Allt í mótun og maður getur haft svo mikil áhrif á þau til góðs,“ segir Ólöf Ása. 

Líf ungs fólks hefur tekið miklum breytingum frá því að Ólöf Ása byrjaði að kenna og eru símarnir og internetið stærsta breytingin. Hrafnagilsskóli, eins og allir aðrir skólar á Íslandi, hafi reynt ýmislegt þegar kemur að símum og símanotkun nemenda. Ólöf Ása segist reikna með því að horft verði til baka á símanotkun ungs fólks eins og sé gert með ljósabekkjanotkun og reykingar ungmenna nú. „Við hlæjum að þessu í dag af því að við vitum betur,“ segir hún. Ólöf Ása segir að fullorðna fólkið þurfi einnig að vera fyrirmyndir þegar kemur að símanotkun. „Við þurfum að kenna þeim að umgangast þessi tæki og þau verða að geta lagt þau frá sér. Fullorðið fólk hefur ekki sjálfsaga í að láta alveg vera að kíkja á síður þegar þau eiga að vera að gera eitthvað annað. Þá getum við ekki ætlast til að 13 ára börn geti það. Við verðum að kenna þeim að leggja frá sér símana, leggja frá sér internetið og vera í því verkefni sem á að vera að gera,” segir Ólöf Ása. 

Ólöf Ása var gestur í Sunnudagssögum á Rás 2 en hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni í Spilaranum