Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Dásamleg ljóðleiftur í agaðri skáldsögu

Mynd: RÚV / RÚV

Dásamleg ljóðleiftur í agaðri skáldsögu

29.10.2020 - 08:16

Höfundar

Það leynir sér ekki að skáldsagan Aprílsólarkuldi, eftir Elísabetu Jökulsdóttur, er afar persónulegt verk, segja gagnrýnendur Kiljunnar. Um leið sé bókin mótaðri og agaðri en það sem höfundurinn hefur áður sent frá sér. „Það er svo gaman að sjá hana stíga inn í form sem hún hefur fullkomið vald á.“

Elísabet Kristín Jökulsdóttir skrifar um sjálfa sig og líf sitt í bókinni Aprílsólarkuldi. Þó hún breyti nöfnum finna lesendur að hún er að vinna með atburði úr eigin lífi. Sagan hefst á því að Védís, aðalpersóna bókarinnar, fær þær fréttir meðan hún dvelst ein í menntaskóla úti á landi að faðir hennar sé látinn og ljóst er að sambandið þeirra á milli var erfitt. Svo vindur sögunni áfram og þegar hún kemur til borgarinnar verður hún ástfangin. Henni er fylgt í gegnum þá sögu þar til það byrjar að molna undan öllu. „Jafnvel þegar hún er að lýsa þessu ástarsambandi, sem hún gerir mjög vel, ástin étur hana næstum því, þá finnur maður að þetta er eitthvað sem geti orðið sjúk ást og orðið skaðleg og hamlandi,“ segir Sunna Dís Másdóttir í Kiljunni. 

Bókin skiptist upp í þrjá meginhluta, segir Þorgeir Tryggvason, það er faðirinn, elskhuginn og manían. „Allir eru þeir frábærir, hver með sínum hætti. Ástarkaflinn er magnaður og þetta er greinilega óskaplega feig ást og viðkvæm. Maður veit að þetta getur ekki farið vel. En í rauninni hverfur hún í skuggann af þessu maníska ráfi um borgina þar sem hún sér merkingu í öllum hlutum, merkingu og fyrirboða ... Ein klisjan auðvitað er að það sé stutt á milli skáldsins og brjálæðingsins en þarna fáum við mynd af því hvernig þú sækir merkingu í hluti þar sem enga merkingu er að finna og hvert það getur leitt.“

Tilraunir sögupersónunnar til að ráða táknin kallast skemmtilega á við Elísabetu og skrif hennar. „Það koma rosalega skýrar og flottar myndir, sem eru ljóðrænan í bókinni ... Það koma ljóðleiftur inn í textann sem eru alveg dásamleg,“ segir Sunna Dís.

Það leynir sér ekki að verkið er mjög persónulegt, segir Egill Helgason. „Faðirinn sem deyr óvænt er leikskáldið Jökull Jakobsson og móðirin er Jóhanna Kristjónsdóttir ... Hún hefur skrifað mjög mikið út frá persónulegri reynslu en þetta er heillegri mynd en maður hefur fengið af Elísabetu.“

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Hvergerðingar sérfræðingar í að taka á móti furðufuglum

Menningarefni

„Þetta er örlagastund á Íslandi núna“

Leiklist

„Við erum alltaf í stöðu fórnarlambsins“