Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Bíða mótvægisaðgerða vegna lokana: „Óvissan er verst“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hársnyrtar, snyrtifræðingar og fleirum sem gert var að loka sinni starfsemi þegar sóttvarnaaðgerðir voru hertar fyrr í mánuðinum bíða enn eftir endanlegum mótvægisaðgerðum frá stjórnvöldum. Óþreyju er farið að gæta hjá rekstraraðilum nú þegar líður að mánaðamótum og þeim gjöldum sem fylgja.

Lög um fjárstuðning til minni rekstraraðila var samþykkt á Alþingi í vor, og náði yfir þau fyrirtæki sem gert var að loka vegna sóttvarnaaðgerða í fyrstu bylgju faraldursins. Þau gilda hins vegar ekki yfir þær takmarkanir sem nú eru í gildi og þess vegna hefur verið lagt fram nýtt frumvarp um framhald á lokunarstyrkjum. Það er nú á borði efnahags- og viðskiptanefndar eftir fyrstu umræðu í síðustu viku.

Í svari frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu við fyrirspurn fréttastofu segir að verði það frumvarp óbreytt að lögum geti allir rekstraraðilar sem gert var að loka eða stöðva starfsemi í haust sótt um styrkina.

Skatturinn bíður eftir grænu ljósi

Snorri Olsen ríkisskattstjóri, segir í samtali við fréttastofu að þar sé beðið eftir að frumvarp um slík úrræði verði samþykkt á Alþingi. Starfsmenn embættisins reyni að vera tilbúnir eins fljótt og hægt er til þess að bregðast við umsóknum.

Hann segir að það sé alltaf eitthvað um að rekstraraðilar hafi samband við Skattinn með fyrirspurnir um hvaða úrræði séu í boði nú þegar margir standi uppi tekjulausir vegna lokana. En á meðan ekki hefur verið afgreitt frumvarp um slík úrræði þá sé ekki hægt að afgreiða neitt hjá embættinu.

Mynd með færslu
Lilja Kristbjörg Sæmundsdóttir, formaður Félags hársnyrtisveina. Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Lilja Kristbjörg Sæmundsdóttir, formaður Félags hársnyrtisveina.

Fólk orðið óþreyjufullt eftir svörum

Lilja Kristbjörg Sæmundsdóttir, formaður Félags hársnyrtisveina, segir að fólk í geiranum sé orðið óþreyjufullt eftir svörum. Nú séu að koma mánaðamót en ekkert sé enn fast í hendi og það sé óvissan sem sé verst.

Lilja segist gjarnan vilja sjá skilvirkari vinnu hjá stjórnvöldum. Ferlið varðandi lokunarstyrki var unnið í vor og því bjuggust margir við því að framhald á slíkum aðgerðum myndi fljóta nokkuð hratt í gegn.

Óvíst er hvenær hárgreiðslustofur og snyrtistofur og svipuð starfsemi geti opnað á ný. Þegar að því kemur bíða hársnyrtar svo eftir því að vita hvernig rammi verði settur um starfsemina, til dæmis er varða fjöldatakmarkanir. Lilja segir að það skipti miklu máli að slíkt komist á hreint, svo hægt sé að skipuleggja sig.

Hársnyrtar hlakki til að koma aftur til starfa og gera landsmenn fína fyrir jólin, en til þess að það sé hægt þurfi skipulagið að vera á hreinu.

Mynd með færslu
Oddbjörg að störfum. Mynd: Aðsend mynd
Snyrtifræðingar bíða eftir mótvægisaðgerðum.

Óttast að einhverjar stofur lifi ástandið ekki af

Birna Ósk Þórisdóttir, formaður Félags íslenskra snyrtifræðinga, tekur í svipaðan streng. Aðgerðirnar í vor hafi hjálpað mikið til en hún óttast að einhverjar snyrtistofur eigi ekki eftir að lifa ástandið af nú án aðgerða.

Fréttastofa hefur heyrt af því að reglugerðir stjórnvalda um takmarkanir séu óskýrari nú en í vor. Snyrtistofur eru lokaðar, en engu að síður má gera fótaaðgerðir þar sem það flokkast undir heilbrigðisþjónustu. Það sé því ef til vill ekki öllum ljóst að snyrtifræðingum var vissulega gert að gera hlé á sinni almennu starfsemi.

Birna ítrekar að félagið styðji aðgerðir stjórnvalda í einu og öllu, en að snyrtifræðingar treysti jafnframt á mótvægisaðgerðir og bíði þeirra. Það þurfi að koma til móts við snyrtifræðinga, hársnyrtistofur og fleiri í þessum bransa. Rekstraraðilar fari brátt að skulda leigu og þá sé staða einyrkja slæm.

Mynd: RUV / RÚV
Katrín Jakobsdóttir um lokunarstyrki 9. október.

Frumvörp um tekjufallsstyrki og hærri lokunarstyrki

Samkvæmt frumvarpinu um framhald lokunarstyrkja verða þeir hærri en í vor, en þá voru þeir gagnrýndir fyrir að vera veigalitlir.

Upphæð styrks til hvers atvinnurekanda er miðuð við fjölda starfsfólks. Hvert fyrirtæki getur fengið allt að 600 þúsund krónur fyrir hvern starfsmann vegna lokunar í einn mánuð. Hámarksupphæð til hvers fyrirtækis verður 120 milljónir króna, en í vor var hún aðeins 2,4 milljónir. 

Þá er tilbúið frumvarp um tekjufallsstyrki sem eiga að aðstoða einyrkja og lítil fyrirtæki sem hafa orðið fyrir tekjumissi vegna faraldursins. Fyrirtæki sem hafa orðið fyrir minnst 50 prósent tekjufalli á tímabilinu 1. apríl til 30. september, og eru með þrjá eða færri starfsmenn, geta sótt um styrkina. Verði frumvarpið samþykkt mun skatturinn sjá um afgreiðslu þeirra. 

Ef einhverjir rekstraraðilar uppfylla skilyrði fyrir báða styrkina, þá dragast lokunarstyrkir fyrir sama tímabil frá tekjufallsstyrkjum.