Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Barist um kjósendur í Flórída

epa08779445 Supporters of both US President Donald J. Trump and Democratic presidential nominee Joe Biden gather outside of Lakewood Amphitheatre where Biden was holding a drive-in campaign appearance in Atlanta, Georgia, USA, 27 October 2020. Georgia has become a battleground state in the upcoming 03 November presidential election.  EPA-EFE/ERIK S. LESSER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Forsetaframbjóðendurnir Donald Trump og Joe Biden halda báðir fundi í Flórída í dag, þar sem afar mjótt er á munum milli þeirra. Trump hafði þar betur gegn Hillary Clinton fyrir fjórum árum, þrátt fyrir að skoðanakannanir sýndu annað. Fimm dagar eru til kosninganna.

Flórída er eitt af lykilríkjunum svonefndu, þar sem úrslit forsetakosninganna ráðast. Sigur þar skiptir miklu máli, þar sem stuðningur 29 kjörmanna er í húfi. Báðir verða frambjóðendurnir með fundi í Tampa, næststærstu borg ríkisins. Skoðanakannanir síðustu daga sýna að úrslitin í Flórída geta farið á hvorn veginn sem er. Samkvæmt könnun sem NBC birti í dag fær Joe Biden 51 prósent atkvæða, Trump 47 prósent. Skekkjumörkin eru hins vegar 4,4 prósent. 

Þegar niðurstaðan er skoðuð betur kemur í ljós að Biden hefur afgerandi meira fylgi meðal þeldökkra kjósenda en Trump. Konur eru líklegri til að styðja hann, sömuleiðis óháðir og eldri borgarar. Trump hefur aftur á móti meiri stuðning meðal kjósenda sem rætur eiga að rekja til Rómönsku Ameríku, karla, og sér í lagi hvítra karla sem ekki hafa lokið háskólaprófi. Það þykja væntanlega góð tíðindi í herbúðum Trumps, því þessi hópur hefur frá árinu 1964 greitt sigurvegara kosninganna atkvæði, með einni undantekningu. 

Þegar fundum dagsins lýkur í Flórída heldur Trump til Norður-Karólínu, annars lykilríkis þar sem úrslitin geta farið á hvorn veginn sem er.