Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Árangur gæti náðst fyrir fyrsta sunnudag í aðventu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Smitstuðullinn utan sóttkvíar er nú 2,1 og hefur mikil dreifing á veirunni og stór hópsmit og lítil í mörgum klösum sett strik í reikninginn. Þetta kemur fram í nýju spálíkani Háskóla Íslands. Samkvæmt finnsku spálíkani dregst faraldurinn á langinn miðað við núverandi aðgerðir og að það fari ekki að draga úr fjölda smita fyrr en í febrúar á næsta ári. Með svokölluðu „lockdown“ spáir finnska líkanið því að faraldurinn gengi niður og að smit yrðu undir 20 á dag um miðjan desember.

Á vef spálíkansins kemur fram að fyrir viku hafi smitstuðullinn verið á leið niður sem og fjöldi daglegra smita. Spáin þá hafi endurspeglað þá þróun og væntingar um að vel mundi ganga. „ Því miður gerðist það ekki.“

Það sé samfélagsins að vinna saman til að ná smitstuðlinum niður en það hafi ekki gerst.  Nú sé möguleiki á veldisvísisvexti. Ljósið í myrkrinu sé að smitstuðullinn hafi ekki náð fyrri hæðum þannig að árangur aðgerða er sýnilegur.

Settar eru upp tvær sviðsmyndir. Annars vegar hafa aðgerðirnar ekki strax áhrif og smitstuðullinn helst svipaður áfram. „Í þessari sviðsmynd er enn meiri óvissa um þróun faraldursins, og smitum gæti rétt eins fjölgað mjög hratt á næstu 10 dögum.“

Hin sviðsmyndin gerir ráð fyrir að aðgerðirnar hafi áhrif á smitstuðulinn í svipum takti og í fyrstu bylgju eftir 20 manna samkomutakmörk. „Þessi sviðsmynd bendir til þess að fjöldi smita haldist stöðugur næstu daga en gæti svo farið lækkandi eftir 10 daga.“

Forsvarsmenn spálíkansins notuðu einnig finnska spálíkanið sem kynnt var í Kastljósi í byrjun október.   Miðað við að gripið yrði til ýtrustu aðgerða, svokallað „lockdown“ myndi faraldurinn fara að ganga niður og tilfelli yrðu komin undir 20 á dag um miðjan desember. „Með núverandi aðgerðum einum og sér er hins vegar spáð að faraldurinn dragist á langinn og ekki fari að draga úr fjölda smita fyrr en í febrúar 2021.“

Miðað við þessa spá þurfi því að bæta í aðgerðir en bent er á hún sé alltaf miðað við forsendur og stöðuna í dag.

Forsvarsmenn spálíkansins segja jafnframt að ef fólk virði nándarmörk, takmarki hópamyndun, vinni heima, noti grímur og passi upp á smitvarnir takist þetta. „Jafnvel fyrir fyrsta sunnudag í aðventu.“

Thor Aspelund, prófessor í líftölufræði, segir í samtali við fréttastofu að aldrei hafi tekist að ná faraldrinum almennilega niður. Veiran sé út um allt. Hann telur þó að erlendu líkönin geri ekki ráð fyrir hversu skilvirk sóttkví sé hér á landi. Annars staðar séu það tilmæli og mögulega þurfi að taka tillit til þess.  Hann segir að það megi lesa úr þessu spálíkani að nauðsynlegt sé að herða aðgerðir.

Búist er við að hertar aðgerðir verði kynntar á fundi ríkisstjórnarinnar á morgun en sóttvarnalæknir skilaði minnisblaði sínu til heilbrigðisráðherra síðdegis í dag. 

Mynd: RÚV / RÚV
Thor fer yfir finnska spálíkanið í Kastljósi í október.
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV