Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

25 látin og tuga saknað eftir óveður í Víetnam

29.10.2020 - 03:24
Erlent · Hamfarir · Asía · fellibylur · Flóð · Flóð í Asíu · Víetnam · Veður
epa08779894 A man takes photo of a flooded area after typhoon Molave made landfall, in Hoi An, Quang Nam province, Vietnam, 28 October 2020. Molave made landfall on 28 October in Quang Ngai province, approximately 100 kilometers south of Hoi An.  EPA-EFE/STR
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Minnst sextán létu lífið í aurskriðum í Víetnam í gær þegar fellibylurinn Molave fór þar hamförum og ekki færri en tólf sjómenn fórust í óveðrinu. Úrhellisrigningar fylgdu storminum og ollu flóðum og aurskriðum, einkum í afskekktum héruðum um miðbik landsins. Tuga er enn saknað. Hundruð hermanna leita eftirlifenda í húsarústum og þykkum aurlögum og er stórvirkum vinnuvélum beitt við björgunarstörfin. Þá stendur leit enn yfir að fjórtán fiskimönnum sem saknað er.

Með öflugustu fellibyljum um áratugaskeið

Molave er  öflugasti fellibylur sem gengið hefur yfir landið um tveggja áratuga skeið, að sögn yfirvalda. Þótt mestu hamfarirnar séu að baki er veður enn slæmt á hamfarasvæðunum og hamlar mjög leitar- og björgunarstörfum. Þá er spáð mikilli úrkomu áfram á flóðasvæðunum, allt að 700 millimetrum fram á sunnudag.

Óveður, úrhelli og flóð hafa dunið linnulítið á Víetnam frá því snemma í október og sett líf rúmlega milljón manns úr skorðum. Fellibylurinn Molave gerði svo illt verra; milljónir urðu rafmagnslausar þegar hann skall á og minnst 56.000 hús hafa skemmst eða eyðilagst, samkvæmt yfirvöldum.

AFP hefur eftir yfirvöldum að um 40  sé saknað þar sem aurskriðurnar féllu. Auk þess stendur leit enn yfir að 14 af 26 fiskimönnum á smábátum, sem ekki skiluðu sér í land áður en stormurinn dundi yfir á þriðjudag. 

Fréttin hefur verið uppfærð til samræmis við nýjar upplýsingar um fjölda látinna. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV