Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tólfta andlátið vegna COVID-19

28.10.2020 - 11:40
Mynd með færslu
 Mynd: . - Landinn/RÚV
Einstaklingur á níræðisaldri lést af völdum COVID-19 sjúkdómsins á síðastliðnum sólarhring. Þetta staðfestir Jóhann K. Jóhannson við fréttastofu. Þetta er tólfta dauðsfallið hér á landi sem rakið er til COVID-19 og heimsfaraldurs kórónuveirunnar.

Tólf hafa látist vegna COVID-19 hér landi. Tíu létust í fyrstu bylgju faraldursins og nú hafa tveir látist í þeirri sem gengur yfir núna. Öldruð kona lést fyrr í þessum mánuði.

Á undanfarinni viku hefur smitum meðal þeirra sem eru 80 ára og eldri fjölgað mjög mikið. Á COVID.is má sjá að uppsafnaður fjöldi smita í þessum aldurshópi tók mikið stökk á liðinni viku. Það má að öllum líkindum skýra með þeim smitum sem greinst hafa á Landakoti, þar sem öldrunarlækningadeild Landspítalans er til húsa. Nú hafa 833,2 af hverjum 100.000 íbúum eldri en 80 ára hér á landi, smitast af COVID-19. Í síðustu viku var það hlutfall 428,5 manns.