Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Þrjár konur krefjast bóta frá Krabbameinsfélaginu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þrjár konur ætla að fara fram á skaðabætur frá Krabbameinsfélaginu. Konurnar telja að þær hafi fengið ranga niðurstöðu úr krabbameinsleit.

Ein af konunum fór í brjóstaskoðun hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins í fyrra. Henni var sagt að ekkert hefði fundist. Nokkru síðar fór hún að finna fyrir einkennum í brjósti. Hún fór í rannsókn hjá sérfræðilækni í sumar. Hann fann stórt illkynja krabbamein í brjóstinu.

Sævar Þór Jónsson er lögmaður kvennanna. Hann segir að krabbameinið í konunni sé mjög stórt miðað við að ekkert krabbamein fannst þegar hún fór á Leitarstöðina í skoðun. „Krabbameinið hefur dreift sér og hún er að kljást við alvarlegar afleiðingar af því,“ segir Sævar Þór.

Hann segir að það séu miklar líkur á að eitthvað hafi farið úrskeiðis í rannsókninni á Leitarstöðinni.

Sævar Þór segir að önnur af konunum þremur hafi farið í brjóstaskoðun hjá Leitarstöðinni árið 2018. Hún fékk líka þá niðurstöðu að ekkert væri athugavert. Hún var ekki sátt við það. Hún fór því til sérfræðings í krabbameinslækningum. Þar kom í ljós að hún var með krabbamein í brjósti.

Sævar Þór hefur vísað málum átta kvenna til embættis landlæknis til nánari skoðunar. Þrjár þeirra ætla að fara fram á skaðabætur frá Krabbameinsfélaginu vegna rangrar greiningar.

 

annathr's picture
Anna Sigríður Þráinsdóttir
málfarsráðunautur