Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Telja tölur ráðherra villandi til að halla á öryrkja

28.10.2020 - 18:21
Mynd með færslu
 Mynd: ÖBÍ - RÚV
Öryrkjabandalag Íslands telur að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hafi sett fram villandi tölur í minnisblaði sem hann lagði fram á ríkisstjórnarfundi í gær.

Þar sagði meðal annars að vegna tekjufalls ríkissjóðs vegna COVID-19 þá mun hlutfall framlaga almannatrygginga að óbreyttu nema tæpum fjórðungi tekna ríkissjóðs, í stað 14-15% áður. Þá hafi framlög til almannatrygginga nær tvöfaldast frá árinu 2013.

Í yfirlýsingu frá Öryrkjabandalaginu í dag segir að framsetning ráðherra af þessu sé villandi. Hlutfallið aukist fyrst og fremst vegna lækkandi tekna ríkissjóðs, en ekki hækkandi gjalda. Þá segir að stærstur hluti af auknum útgjöldum hafi farið til eldri borgara, en ekki öryrkja. 

Þá er Bjarni gagnrýndur fyrir að taka innflytjendur, eða erlent vinnuafl, út fyrir sviga þegar kemur að hlutfalli fólks á örorku á vinnufærum aldri. Með því sé látið eins og sá hópur skipti engu í verðmætasköpun landsins.

Þá gagnrýnir Öryrkjabandalagið einnig að ráðherra taki til að örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum hafi fjölgað um 4.300 frá 2013, því íbúum landsins hafi fjölgað um rúmlega 45 þúsund á þeim tíma og hlutfallið sé ekki óvenjulega hátt.

„Eftir stendur sú tilfinning að tilgangur minnisblaðsins sé fyrst og fremst til að ýja að því að það séu öryrkjarnir sem frekastir eru á fleti,“ segir í yfirlýsingu ÖBÍ.