Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Smit í undirheimum Akureyrar veldur vandræðum

28.10.2020 - 14:42
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Einstaklingur sem tengist undirheimunum á Akureyri greindist með kórónuveiruna. Hann hefur ekki virt einangrun og erfitt hefur reynst að rekja ferðir hans. Þetta staðfestir Hermann Karlsson hjá aðgerðastjórn Almannavarna á Norðurlandi eystra.

Tíu ný tilfelli í gær

Faraldurinn virðist vera í töluverðum vexti á Norðurlandi eystra. Tíu ný tilfelli greindust í gær en 51 er í einangrun og 135 í sóttkví. Þá dvelja sex í farsóttarhúsi sem opnað var um helgina.

„Já, höfum verið að fá því miður aukningu á aðilum sem hafa verið að veikjast, við fegnum 10 smit í gærkvöldi og þau dreifast ansi víða og skapa þar af leiðandi mikið flækjustig,“ segir Hermann. 

Fólk sem virðir ekki reglur

Lögreglan hefur þurft að hafa afskipti af smituðu fólki og fólki sem átti að vera í sóttkví. Hermann segir faraldurinn vera í töluverðum vexti í umdæminu. 

„Það er búið að vera viðvarandi hjá okkur núna í á aðra viku og það er svo sem eitthvað sem við bjuggumst við. Þetta er verkefni sem höfuðborgarsvæðið hefur verið glíma við hingað til en eru að detta til okkar núna. Við vorum undirbúnir að vissu leiti en þetta skapar mikil og erfið verkefni og samskipta við aðila sem að svona öllu jöfnu vilja ekkert með okkur hafa eða eiga samskipti við lögreglu.“ 

Akureyringar hafi ekki slakað á klónni

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, hrósaði sveitungum sínum fyrir góðan árangur í sóttvörnum í samtali við fréttastofu RÚV fyrr í þessum mánuði. Sagði hún löghlýðni bæjarbúa hafa spilað stóran þátt í því að færri smit fyndust norðan heiða.

Er ástæða til þess að halda því fram að Akureyringar séu að slaka á klónni? 

„Nei, ég held að það sé nú ekki. Menn hafa ekki verið að slaka á en fólk þarf samt að vera vakandi fyrir stöðunni og vera á varðbergi hvert sem það fer og hvert sem það kemur og við hverja átt er samskipti. Því þetta leynist víða.“