Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Skýrslutöku af áhöfn Júlíusar Geirmundssonar lokið

Ísafjörður Höfnin Bryggja BátÍsafjörður Höfnin Bryggja Bátur skip Júlíus Geirmundsson ÍS270
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.is
Lögreglan á Vestfjörðum hefur yfirheyrt 23 skipverja á Júlíusi Geirmundssyni. Lögreglunni hefur enn ekki borist kæra frá stéttarfélögunum fimm.

Fimm stéttarfélög skipverja á Júlíusi Geirmundssyni tóku höndum saman um að kæra skipstjórann og útgerðina, Hraðfrystihúsið Gunnvöru, til lögreglu fyrir að hunsa tilmæli yfirvalda um viðbrögð við hópsmiti á togaranum. Þá hafa félögin lagt fram beiðni til Héraðsdóms um að fram fari sjópróf í málinu til að leiða í ljós hvað gerðist um borð.

13 af 25 skipverjum eru í einangrun eftir að hafa greinst með kórónuveiruna en skipið var að veiðum í nærri þrjár vikur eftir að sá fyrsti veiktist.

Karl Ingi Vilbergsson, lögreglustjóri á Vestfjörðum, segir að lögreglunni hafi enn ekki borist kæra frá stéttarfélögunum. Rannsókn er hafin og skýrslutökum á skipverjunum lauk í gær. Þeir voru meira og minna allir í sóttkví eða einangrun og voru því yfirheyrðir í síma. Lögreglan hefur ekki rætt við forsvarsmenn útgerðarinnar eða skipstjórann en að sögn Karls Inga verður ekki unnt að yfirheyra skipstjórann fyrr en hann er laus úr einangrun.

Eins og er hefur enginn réttarstöðu sakbornings en málið er rannsakað á grundvelli sjómanna- og sóttvarnalaga.