Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Skellt í lás á Hótel Sögu

28.10.2020 - 15:46
Mynd með færslu
 Mynd: Radissons Hotels - Mynd
Hótel Sögu verður lokað um mánaðamótin og segir hótelstjórinn að stjórnendur séu nauðbeygðir til að taka þá ákvörðun. Stefnt var að því að hafa opið í það minnsta til áramóta.

Frá þessu er greint á vef Bændasamtakanna. Samtökin eiga bæði Bændahöllina, sem á fasteignina, og Hótel Sögu sem er rekstrarfélag hótelsins. Starfsemi Bændasamtakanna og önnur starfsemi í húsinu sem ekki tengist hótelrekstrinum verður óbreytt.

Fjárhagsleg endurskipulagning hefur staðið yfir að undanförnu og veitti Héraðsdómur Reykjavíkur framlengda heimild fram í apríl til þess, á grundvelli laga sem samþykkt voru í sumar vegna kórónuveirufaraldursins. Bændahöllin og Hótel Saga hafa verið í greiðsluskjóli gagnvart kröfuhöfum sínum síðan í júlí. 

Sigurður Kári Kristjánsson, sem var skipaður aðstoðarmaður við fjárhagslega endurskipulagningu félaganna, segir í samtali við fréttastofu að þetta hafi engin áhrif á þá fjárhagslega endurskipulagningu sem nú stendur yfir. Það sé varúðarráðstöfun að loka hótelinu, því það kosti einfaldlega meira að halda því opnu en að hafa það lokað.

„Hótel Saga er stórt hótel og það þarf að lágmarki 15 til 20 starfsmenn til að halda uppi allra nauðsynlegustu þjónustu og tekjumöguleikar eins og staðan er í dag nánast engir,“ segir Ingibjörg Ólafsdóttir, hótelstjóri, á vef Bændasamtakanna.

Sigurður Kári segir að öllu starfsfólki hafi verið sagt upp í apríl og því sé ekki um umfangsmiklar uppsagnir að ræða nú. Þegar reynt var að halda opnu var þjónustan engu að síður skert og keyrt á lágmarks afköstum og mannafla.