
Síminn tapaði fyrir dómi og þarf að greiða skaðabætur
Þetta kemur fram í tilkynningu Símans til Kauphallar, en dómurinn hefur ekki verið birtur á vef Héraðsdóms Reykjavíkur. Stefnufjárhæðin í málunum nam tæpum milljarði.
Í tilkynningu Símans segir að málið megi rekja aftur til áranna 2005-2007 og byggt á því að Síminn hafi valdið Tölvuni, Snerpu og Hringiðunni tjóni á markaði vegna internetþjónustu. Síminn á eftir að meta það hvort dómnum verður áfrýjað til Landsréttar.
1,9 milljarða hagnaður það sem af er ári
Dómurinn féll daginn eftir að Síminn tilkynnti um afkomu sína á þriðja ársfjórðungi. Hagnaður fyrirtækisins á tímabilinu nam rúmum milljarði, samanborið við tæplega 900 milljóna króna hagnað á sama tíma í fyrra.
Hagnaður Símans fyrstu níu mánuði ársins nemur samtals tæpum 1,9 milljarði, en var 2,3 milljarðar fyrstu níu mánuði síðasta árs.
Í árshlutareikningi Símans kemur fram að áhrif COVID-19 á rekstur og sjóðsstreymi Símans séu óveruleg fyrstu níu mánuði ársins. Þrátt fyrir samdrátt í efnahagslífinu og óljós áhrif þess þá hefur eftirspurn eftir kjarnavörum félagsins haldist sterk, segir í yfirlýsingu stjórnar.