Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Sex hundar drápust: „Þetta var eins og í hryllingsmynd“

28.10.2020 - 19:13
Innlent · Bruni · Eldsvoði · Hundar
Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
„Þetta var eins og í hryllingsmynd,“ segir eigandi sex hunda sem drápust í eldsvoða í Kópavogi í gær. Hún heyrði angistaróp hundanna en gat ekkert gert. Fjórir hundar lifðu eldsvoðann af.

Mikill eldur kom upp í íbúð í húsi við Arakór í Kópavogi um þrjúleytið í gær. Í íbúðinni bjó Erna Óladóttir ásamt ellefu hundum sem hún var að rækta.

„Ég var að fara með hundinn minn til dýralæknis og áður en ég veit af, eftir innan við fimm mínútur, hringir mamma og segir að það sé kviknað í. Ég sný við, kem hingað og það fyrsta sem ég ætla að reyna að gera er að hlaupa inn.“

Hvers vegna?

„Af því að litlu börnin mín eru þarna inni, gargandi og grátandi og ég get ekki gert neitt.“

Þá ertu að tala um hundana þína?

„Já.“

„Með sár á nebbanum“

Tíu hundar voru inni í íbúðinni þegar eldurinn kom upp og Erna segir að bæði hafi verið mikill eldur og reykur og því lítið verið hægt að gera.

„Þetta var eins og í hryllingsmynd. Alltof sárt sko. Að heyra þau væla og skæla og berjast fyrir lífi sínu þarna inni og þú getur ekkert gert. Það eina sem þú getur gert er að bíða og standa og vona. Ég var alveg viss um að þau væru öll farin. Þetta var það mikið.“

Talið er líklegt að kviknað hafi í út frá lampa. Af hundunum tíu sem voru í íbúðinni drápust sex en fjórir lifðu af. Erna fór og náði í einn þeirra á dýraspítalann í dag. Og það voru fagnaðarfundir þegar þeir sem komust lífs af komu saman í dag. Líðan þeirra er eftir atvikum.

Þessi sem er í hettunni hjá þér, hún brenndist illa?

„Já hún var sú eina sem fékk eitthvert líkamlegt sár fyrir utan þessa sem fóru. En hún er með sár á nebbanum. Hún var látin en þeir náðu að lífga hana við. Hún kom sem sagt til baka,“ segir Erna.