Sér ekki hvar EHF ætlar að koma leiknum fyrir

Mynd: rúv / rúv

Sér ekki hvar EHF ætlar að koma leiknum fyrir

28.10.2020 - 17:24
Handknattleikssamband Evrópu hefur frestað leik Íslands og Ísrael í undankeppni EM 2022 sem átti að vera 7. nóvember næstkomandi að beiðni ísraelska handknattleikssambandsins. Íslenska handknattleikssambandið hefur mótmælt frestuninni og sér ekki hvar EHF ætlar að koma leiknum fyrir í þéttskipuðu leikjaplani.

 

Í tölvupósti EHF, sem HSÍ barst í morgun, kemur fram að frestunin sé vegna vandræða Ísraela með að komast hingað vegna ferðatakmarkana og hættu á að leikmenn liðsins þurfi að fara í einangrun að leik loknum.

„Þeir gáfu upp þær ástæður að Ísrael á í vandræðum með ferðalög til Íslands einnig eru þeir hræddir við að lenda í sóttkví við heimkomu. Við höfum ekki gefið mikið fyrir þau rök eins og er þar sem fyrir lá að þeir væru að fljúga í gegnum Portúgal og þar er staðan verri heldur en hér. Þetta olli okkur vonbrigðum þessi ákvörðun,“ sagði Róbert Geir Gíslason framkvæmdastjóri HSÍ í samtali við RÚV í dag.

Engin ný dagsetning hefur verið fundin fyrir leikinn - hefur HSÍ mótmælt frestuninni harðlega og bíður svara.

„Þeir gáfu upp þær ástæður að Ísrael á í vandræðum með ferðalög til Íslands einnig eru þeir hræddir við að lenda í sóttkví við heimkomu. Við höfum ekki gefið mikið fyrir þau rök eins og er þar sem fyrir lá að þeir væru að fljúga í gegnum Portúgal og þar er staðan verri heldur en hér. Þetta olli okkur vonbrigðum þessi ákvörðun.“

Leik Íslands og Litáen hefur ekki verið frestað en hann verður í Laugardalshöll 4. nóvember.

„Ég sé ekki hvað EHF ætlar að koma honum fyrir, því miður,“ sagði Róbert að lokum

Nánar er rætt við Róbert Gíslason í spilaranum hér fyrir ofan.