Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Segir hjúkrunarheimili ekki fengið krónu bætta

28.10.2020 - 08:48
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hjúkrunarheimili sjá fram á mörghundruð milljóna króna kostnað vegna COVID-19. Framkvæmdastjóri gagnrýnir stjórnvöld fyrir að koma ekki til móts við heimilin.

Frá því að kórónuveiran fór að gera vart við sig hér í vetur hefur verið mikill viðbúnaður á hjúkrunarheimilum til þess að verja þann viðkvæma hóp sem þar býr. Eybjörg Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu segir mikinn kostnað fylgja auknum smitvörnum; „Það eitt og sér að skipta upp hjúkrunarheimili í sóttvarnarhólf, það kallar á aukna mönnun, svo hafa ítrekað komið upp sóttkví hjá starfsmönnum og jafnvel smit, þá þarf að kalla út auka vaktir og vaktaálag,“ segir Eybjörg.

Þá sé mjög kostnaðarsamt að fá smit inn á heimilin. Frá tímabilinu mars til ágúst hefur aukakostnaður hjúkrunarheimila með samning við Sjúkratryggingar Íslands vegna COVID verið 312 milljónir. Eybjörg segir ríkið ekki hafa bætt heimilunum krónu vegna þessa. 

Tekjutap vegna vannýttra plássa

Að auki sé tekjutap vegna vannýttra plássa um 130 milljónir. Í fjárheimildum ársins sé gert ráð fyrir ákveðinni nýtingu en plássin hafi ekki verið fullnýtt vegna COVID. „Vegna þessa hefur væntanlega setið eftir peningur inni í ríkissjóði. Hjúkrunarheimilum finnst það frekar hart að það sé verið að greiða minna til þeirra heldur en áætlað var útaf covid.“ segir hún. Heimilin séu vegna þessa jafnvel ver í stakk búin nú í þriðju bylgjunni til þess að sinna smitvörnum og skipta upp í sóttvarnahólf. 

Sjúkratryggingar Íslands segja stjórnvöld hafa lýst yfir vilja til að koma til móts við veitendur heilbrigðisþjónustu. Stjórnvöld hafi þegar kallað eftir gögnum um umframkostnað vegna COVID.